144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Tvö mjög mikilvæg mál, annars vegar eru málefni hælisleitenda, málaflokkur sem hefur vaxið að umfangi innan ráðuneytisins og almennt, sem hafa kallað á mikinn aukinn kostnað og vinnuframlag. Það er alveg eins og ég hef margsinnis viðurkennt og held að við hljótum að vera sammála um, íslenskt samfélag hefur kannski ekki alveg náð að glíma við það viðfangsefni og verkefni eins og við hefðum viljað. Að einhverju leyti mundi maður þó útskýra það með þeim hætti að það hafi komið dálítið bratt upp á stjórnvöld eins og það hefur gert í mörgum öðrum löndum. Það er viðfangsefni sem hefur orðið stærra og kallað á ákveðin viðbrögð.

Við erum að reyna að gera mjög margt í þeim málaflokki. Við erum með frábæra þverpólitíska þingmannanefnd sem aðstoðar ráðuneytið við málið og við erum að reyna að breyta því þannig að allt sem þingmaðurinn nefndi horfi til betri vegar. Við erum líka með þessa sjálfstæðu úrskurðarnefnd sem tekur nú til starfa. Var verið að auglýsa eftir framkvæmdastjóra þar.

Hins vegar er aðbúnaðurinn. Já, við teljum okkur standa betur að því vegna þess að nú höfum við gert samning við Rauða kross Íslands sem heldur utan um ákveðna þjónustu við þessa aðila. Rauði krossinn er fagaðili og við teljum að við gerum það eins vel og okkur er frekast unnt. Fyrst og síðast leggjum við þó metnað okkar í að hraða umsóknarferlinu og tryggja að þau mörgu skrifborð sem um þessi mál fjalla séu ekki full af bunkum þar sem umsóknir bíða í langan tíma eins og það hefur verið. (Gripið fram í.) Varðandi fangelsin held ég að það sem skipti mestu máli í þessu — ég get ekki sagt hér, hv. þingmaður, að ég telji að við séum að sinna því alveg eins vel eða fullkomlega og við gætum. Hins vegar sýna skýrslur um þessi mál hér á landi að það sem mestu skiptir varðandi breytingar á þeim málum á Íslandi er nýtt fangelsi á Hólmsheiði. Það er það verkefni sem ég hef barist fyrir að klára til að við gætum tryggt bættan aðbúnað og nýtt hin fangelsin með þeim hætti sem við eigum að gera. Ég held að við séum að taka stórt skref. Ég er þeirrar skoðunar að (Forseti hringir.) Fangelsismálastofnun og fangelsin okkar víða um land hafi unnið ötullega að verkefnum sem þeim er falið. Ég bendi á að varðandi námsþjónustu og annað sem hefur verið í boði á til dæmis Litla-Hrauni (Forseti hringir.) stöndum við mjög framarlega. Aðrar þjóðir líta til okkar varðandi ákveðnar betrunarlausnir sem er talið að sé vel sinnt af okkar (Forseti hringir.) hálfu.