144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég halla mér reyndar eilítið upp að sérþekkingu hennar í þessum málaflokki enda kemur hún að vinnu sem við erum með á þessum vettvangi. Við höfum áður nefnt það og rætt það hér að það er mikilvægt að við förum í að hugsa þessi mál dálítið upp á nýtt og gera það óhikað. Það er alveg rétt að við lögðum niður ákveðna þætti í þessu á síðasta ári og á síðasta þingi. Það er líka alveg rétt að þarna er lækkun til Neytendasamtakanna og Neytendastofu, en það er sambærileg hagræðingarkrafa og gerð er á aðrar stofnanir og annan stuðning ráðuneytisins eins og ég nefndi hér áðan.

Varðandi það verkefni — okkur hefur orðið tíðrætt um það hér í þessum sal, eðlilega í kringum fjárlagafrumvarpið, hvort þessi breyting á virðisaukaskattinum, þ.e. lækkunin, muni skila sér til neytenda. Ég trúi því að það muni gera það. Ég hef kannski meiri trú á þeim sem eru að selja vöru og þjónustu til almennings en sumir, ég trúi því og treysti að þeir vilji sýna almenningi að við það verði staðið. Ég trúi því og treysti að kaupmenn og aðrir þeir sem selja vöru hér í landinu sjái hag sinn í því líka að almenningur finni og skynji þegar svona lækkanir eiga sér. Ég ber því þær væntingar í brjósti.

En nákvæmlega hvaða afleiðingar eða áhrif eða aukinn kostnað það hefur í för með sér, til dæmis fyrir Neytendastofu, þori ég ekki að fullyrða um á þessu stigi. Við munum greina það og fara yfir það en það liggur ekkert fyrir um það eða aukna aðkomu þeirrar stofnunar hvað þessi verkefni varðar. En ég get fullyrt að við munum vera á vaktinni varðandi það og ég veit að hv. þingmaður verður það líka.