144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpi 2015 eru heildargjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir árið 2015 áætluð um 12,7 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að með frumvarpinu muni útgjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytisins dragast saman um nær 247 millj. kr. á milli ára á föstu verðlagi eða sem svarar til 2,5%, en að teknu tilliti til áhrifa almennra launa- og verðlagsbreytinga lækka útgjöldin um 43,2 milljónir eða sem nemur 0,4%.

Ráðuneytið hyggst ná aðhaldsmarkmiðum með almennri rekstrarhagræðingu og forgangsröðun verkefna hjá ráðuneytinu og stofnunum þess en almenn aðhaldskrafa nemur að meðaltali 1,3% af útgjaldaveltu, eins og ég býst við að þingmenn þekki nokkuð vel.

Í tilviki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og stofnana þess nemur þetta veltutengda aðhaldsmarkmið í útgjaldarammanum um 87 millj. kr. Jafnframt var ákveðið að veita ráðuneytum tiltekið útgjaldasvigrúm til ráðstöfunar í ýmis útgjöld við smærri verkefni sem talin eru leiða af fyrri skuldbindingum. Útgjaldasvigrúm umhverfis- og auðlindaráðuneytisins nam 120 milljónum og verður það meðal annars nýtt til að standa undir nýjum og auknum verkefnum í rekstri stofnana ráðuneytisins.

Málefnaflokkar ráðuneytisins eru fjórir talsins: rannsóknir, umhverfisvernd, skipulagsmál og síðan ráðuneytið sjálft, en aðhaldsmarkmið fjárlagafrumvarpsins snertir alla málefnaflokka ráðuneytisins og stofnana þess.

Ráðuneytið hefur forgangsraðað útgjaldasvigrúmi til einstakra verkefna sem nú verður betur gerð grein fyrir.

Í málefnaflokki sem tengist rannsóknum er í frumvarpinu gert ráð fyrir 50 millj. kr. árlegri fjárveitingu til tveggja ára vegna uppsagnar Evrópusambandsins og samnings við Náttúrufræðistofnun Íslands um IPA-verkefnið Natura Ísland. Jafnframt er gert ráð fyrir að gerð verði tillaga um 53 millj. kr. fjárveitingu í frumvarpi til fjáraukalaga 2014. Niðurstöður verkefnisins eru tvíþættar.

Í fyrsta lagi munu niðurstöðurnar lýsa náttúrufari Íslands, sérstaklega lífríki, á mun heildstæðari hátt en áður og mun auðveldara verður að meta náttúrufarsverðmæti einstakra landsvæða sem og landsins í heild.

Í öðru lagi mun greining á landi í vistgerðir nýtast öllum sem þurfa að nota flokkun á landi og kortlagningu þess við skipulagningu eða framkvæmdir eða til annarra beinna nota. Náttúrufræðistofnun mun skila af sér stafrænu vistgerðakorti af öllu landinu og notkun þess hefur margháttaðan fjárhagslegan ávinning fyrir samfélagið. Kortið mun nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi við gerð ýmissa áætlana, svo sem náttúruverndaráætlunar, skipulagsáætlana sveitarfélaga, landsskipulags og mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og leggja þannig mikilvægan grunn fyrir upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun í landbúnaði og skógrækt í náttúruvernd og vegna útivistar.

Vinna við þetta verkefni hófst árið 2012. Samkvæmt upphaflegri áætlun átti því að ljúka árið 2015. Að mati ráðuneytisins er mjög mikilvægt að ljúka þessari vinnu. Undir það hefur meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga tekið, ellegar gætum við hugsanlega verið að kasta verðmætum á glæ eða ef það dregst úr hömlu að ganga frá þessu standa í það minnsta ýmsir aðilar frammi fyrir auknum kostnaði.

Í málefnaflokknum umhverfisvernd er í frumvarpinu gert ráð fyrir um 15,5 millj. kr. árlegri fjárveitingu í tengslum við breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, frá 27. desember 2013 þar sem loftgæðatilskipun Evrópusambandsins var lögfest. Í tengslum við lagabreytinguna þarf Umhverfisstofnun að setja upp og reka mælistöðvanet og loftgæðastjórnunarkerfi til að halda utan um gögn frá mælistöðvum og önnur gögn um loftgæði. Einnig mun stofnunin halda bókhald um tiltekin loftmengunarefni, setja fram losunarspá, sinna utanumhaldi gagna og standa skil á gögnum til Eftirlitsstofnunar EFTA og sinna samskiptum við sveitarfélög og innlendar sem og erlendar stofnanir.

Auk þess er í frumvarpinu gert ráð fyrir tímabundinni 4,5 millj. kr. fjárveitingu vegna stjórnar vatnamála.

Frá því að lög um stjórn vatnamála tóku gildi 2011 hefur kostnaður stofnunarinnar verið fjármagnaður til bráðabirgða með fjárveitingu í fjárlögum. Auka þarf fjárveitingar til stjórnar vatnamála á næstu árum til að hægt sé að uppfylla skuldbindingar vegna málaflokksins. Í því sambandi má nefna að gert er ráð fyrir að kostnaður skiptist á milli ríkis og notenda.

Í verkefni sem tengjast ráðuneytinu er gert ráð fyrir 30 millj. kr. tímabundinni fjárveitingu til að leysa úr fortíðarvanda og vinna upp málshraða vegna fyrirhugaðrar sameiningar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Gert er ráð fyrir að afgreiðslutími mála hjá sameinaðri nefnd verði kominn í eðlilegt horf í árslok 2015.

Í öðru lagi er farið fram á 20 millj. kr. fjárveitingu til eflingar landgræðslu og skógræktar í landinu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að leggja skuli sérstaka áherslu á að efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við. Þessum fjármunum verður varið til skipulagðra skógræktar- og landgræðsluframkvæmda á völdum svæðum á landinu á grundvelli sérstakrar aðgerðaáætlunar sem unnin verður undir stjórn ráðuneytisins í samstarfi við fagstofnanir þess á þessu sviði, svo sem eins og Skógrækt ríkisins, Landgræðslu Íslands og landshlutaverkefna í skógrækt.

Miklir vaxtarmöguleikar eru í skógrækt á Íslandi en á næstu áratugum má gera ráð fyrir allmörgum ársverkum í tengslum við greinina. Efla þarf, m.a. á grundvelli þingsályktunartillögu og stjórnarsáttmála, stuðning við skógrækt á bújörðum sem og landgræðslu þar sem aðstæður eru ákjósanlegar. Við eigum því eftir að njóta góðs af aukinni atvinnusköpun með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði þegar fram í sækir.

Markmið fjárlagafrumvarps næsta árs er því að tryggja stöðugleika og vöxt svo jafnvægi náist í ríkisfjármálum sem eykur svigrúm til áframhaldandi uppbyggingar.