144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi ferðaþjónustunnar bæði sem atvinnugreinar og gjaldeyrisskapandi greinar og mikilvægi hennar í að dreifa störfum um landið. Verkefnin hafa aftur á móti snúist um að þeir náttúrustaðir sem ferðamenn sækja þoli það álag sem vaxandi fjöldi ferðamanna skapar.

Í því ljósi er rétt að geta þess að á þessu sumri setti ríkisstjórnin sérstaklega 380 milljónir í þetta verkefni sem er það mesta sem hefur verið sett til uppbyggingar í þessum geira og reyndar samtals um 700 milljónir á yfirstandandi ári til málaflokksins. Eins og hv. þingmaður veit hafa verið uppi hugmyndir um að fjármagna frekari uppbyggingu, m.a. í gegnum svokallaðan náttúrupassa eða þá leið sem niðurstaða verður um að lokum. Ég veit að hv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsti um það fyrr í dag að slíkt frumvarp verður lagt fram á haustdögum.

Það sem síðan snýr að umhverfisráðuneytinu er að við munum leggja fram frumvarp um svokallaða framkvæmdaáætlun um uppbyggingu innviða, er á þingmálaskránni. Sú áætlun verður uppbyggð með svipuðum hætti og samgönguáætlun, þ.e. menn horfi langt fram í tímann, 12 ár, um það hvernig við ætlum að byggja upp á friðlýstum svæðum, í þjóðgörðum okkar, á ferðamannastöðum, á mikilvægum stöðum og á nýjum stöðum. Síðan er þriggja ára aðgerðaáætlun sem verði fjármögnuð annaðhvort beint úr ríkissjóði eða með þeim nýju fjármunum sem koma í gegnum náttúrupassann. Það frumvarp er í sjálfu sér óháð því hvaðan peningarnir koma.

Ég tel að það svari mjög mörgum af þeim spurningum sem hv. þingmaður og þeim áhyggjum sem mjög (Forseti hringir.) margir aðrir hafa af því að vaxandi ferðamannastraumur valdi (Forseti hringir.) of miklu álagi á einstaka staði.