144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma aðeins inn á umhverfismálin.

Í fjárlagafrumvarpinu er kafli sem heitir Umhverfisvernd og snýr að mestu leyti að skógrækt og þjóðgörðum. Mér hefur fundist við á Íslandi vera, ef ég má kalla það svo, meiri náttúruverndarsinnar en umhverfisverndarsinnar. Við erum upptekin af virkjunum, landinu okkar, þeim fáu verksmiðjum sem hér eru, en erum kannski ekki nógu dugleg að velta fyrir okkur áhrifum neyslu okkar, hvaða neikvæðu umhverfisáhrifum hún veldur úti í heimi þar sem vörurnar eru framleiddar. Auðvitað eru þær framleiddar með tilheyrandi mengun en af því að verksmiðjurnar eru í Kína eða einhvers staðar fjarri okkur þá er eins og það sé ekki mikið vandamál.

Mér finnst við líka alveg ótrúlega aftarlega á merinni þegar kemur að endurvinnslu, urðun og fráveitumálum. Við erum að urða dýrahluta sem á að brenna og höfum fengið skammir fyrir frá ESA. Mér finnst þetta vera til skammar. Við getum ekki haldið úti brennslum á nokkrum stöðum á landinu vegna þess að sveitarfélög hafa ekki efni á að koma sér upp einhverjum hreinsibúnaði. Það er þá ekki eins og ríkið stígi inn og hjálpi til, þannig að við sendum draslið til útlanda og það er brennt þar eða við keyrum það allt á Suðurnesin. Þetta er málaflokkur sem ég mundi vilja ræða einhvern tímann sérstaklega við umhverfisráðherra.

Ég sakna þess í frumvarpinu að heildstæðari áhersla sé á umhverfismálin. Ég hef ásamt fleirum lagt fram tillögu um aðgerðir til að draga úr matarsóun, að við reynum að sporna við henni. Það er stórt umhverfismál. Það eru mörg fleiri slík mál sem snúa að neyslunni og að ábyrgð okkar.

Mig langar því til að heyra aðeins, ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, hvað hæstv. umhverfisráðherra hefur um þetta að segja.