144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Það eru, ef ég man rétt, alla vega tvö verkefni sem tengjast einmitt græna hagkerfinu og snúa að því. Annars vegar er Landgræðslan með verkefni og hins vegar er Matís með verkefni og fleiri aðilar sem snúa að því að breyta fiskúrgangi eða slori í lífrænan áburð og hjá Landgræðslunni þá í gegnum jarðgerð.

Það er til stefna, hún er í græna hagkerfinu þar sem stefnt var, að ég held, á 15% framleiðslu á lífrænum landbúnaðarvörum. Ég skrifaði undir sérálit hvað þá tillögu varðaði í nefndinni þar sem ég taldi ólíklegt að við mundum á þeim tíma fara þangað, meðal annars vegna þess að íslensk matvæli eru mjög heilnæm og framleidd undir allt öðrum stöðlum, en sú eftirspurn er eðlilega fyrir hendi í þéttbýlli Evrópu eða borgum vestan hafs, eftirspurn eftir þessum lífrænu afurðum. Hér höfum við verið með framleiðslu sem menn hafa kallað vistvæna sem var svona svar tíunda áratugarins við þessari umræðu. Við þurfum að fara yfir það mál, sú vinna er hafin í landbúnaðarráðuneytinu en ég held að það séu sannarlega tækifæri þarna. Það er eftirspurn á markaðnum og ef til er eftirspurn finnst mér augljós skylda framleiðenda að reyna að svara henni. Það eru alls konar aðilar að gera ýmislegt, ég veit að hjá Mjólkursamsölunni er greitt talsvert hátt yfirverð fyrir lífræna vöru. Hún er engu að síður ekki framleidd og ég held að ástæðan sé skortur á lífrænum áburði, menn treysta sér hreinlega ekki í að fara að framleiða nema þeir hafi aðgang að einhverju slíku. Í umhverfisráðuneytinu erum við sem sagt að vinna að því að styrkja þennan grundvöll til að við getum farið lengra inn á þessa braut, því að þar sem er eftirspurn eiga þeir sem geta framleitt að mæta þeirri eftirspurn.