144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Með alþjóðavæðingu, vaxandi milliríkjaviðskiptum og greiðari samgöngum vex mikilvægi utanríkismála. Íslendingar hafa notið verulegs ávinnings af auknu samstarfi þjóða. Þar má nefna tvíhliða og marghliða fríverslunarsamninga, samninga um alþjóðaviðskipti, þróunarsamvinnu, viðskipti og þjónustu, menningarmál, samstarf um mannréttindi, umhverfisvernd, friðargæslu, samstarf um varnar- og öryggismál og margt fleira. Væri þessi samvinna ekki fyrir hendi væri staða Íslendinga allt önnur og verri en hún er í dag. Til dæmis hefðu Íslendingar ekki jafn greiðan aðgang fyrir vörur sínar og þjónustu að mörkuðum erlendis og þeir hafa nú, erlendir ferðamenn hefðu ekki jafn greiðan aðgang að Íslandi og Íslendingar hefðu ekki jafn greiðan aðgang að vinnumarkaði eða námi erlendis og þeir hafa nú. Íslensk fyrirtæki ættu erfiðara með að athafna sig í öðrum löndum, mannréttindi væru síður virt og heimurinn væri óöruggari en nú er.

Í alþjóðavæddum heimi eru Íslendingar mikið á faraldsfæti. Fyrir þá er mikilvægt að hafa aðgang að öryggisneti borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist á undanförnum áratugum felast mörg tækifæri í því að bæta samstarfið enn frekar. Utanríkismál eru mikilvæg fyrir fámenna þjóð sem byggir efnahag sinn að stórum hluta á greiðum viðskiptum og góðu samstarfi við nágrannaþjóðir. Slík þjóð verður að leggja sitt af mörkum í alþjóðasamstarfi og sterk utanríkisþjónusta er lykillinn að því að Íslendingar fái tækifæri til að njóta afraksturs alþjóðavæðingar.

Þar er þó einn hængur á. Smærri þjóðir hafa síður ráð á því að reka stóra utanríkisþjónustu. Þá reynir á góða forgangsröðun, fagleg vinnubrögð og útsjónarsemi. Það hefur utanríkisþjónusta okkar ávallt þurft að glíma við.

Við Íslendingar höfum að jafnaði varið um 2% af ríkisútgjöldum til utanríkismála. Stór hluti af þeim útgjöldum er í erlendri mynt. Í þeirri gjaldeyriskreppu sem þjóðin lenti í fyrir nokkrum árum var eðlilega litið til útgjalda utanríkismála þegar kom að niðurskurði í ríkisrekstri. Dregið var úr framlögum til þróunarsamvinnu og umfang utanríkisþjónustunnar minnkað. Þegar á heildina er litið gerir þetta frumvarp ráð fyrir að halda útgjöldum til utanríkismála nokkuð í horfinu ef frá er talin almenna hagræðingarkrafan, sem er eins og fram hefur komið fyrr í dag 1,3%.

Framlög til þróunarsamvinnu hafa verið um þriðjungur af útgjöldum íslenska ríkisins vegna utanríkismála. Íslensk stjórnvöld hafa unnið að því að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna. Á árunum 2006–2008 hækkaði þannig framlag Íslands mikið og fór hæst í 0,37% árið 2008. Í kjölfar gjaldeyriskreppunnar sem reið yfir árið 2008 var framlagið skorið niður og fór lægst í 0,21% árin 2011 og 2012. Alþingi samþykkti svo ályktun árið 2012 um að auka framlagið jafnt og þétt til ársins 2016 með það að markmiði að ná 0,7%, eða markmiði Sameinuðu þjóðanna, árið 2019.

Mikilvægur liður í því að ná hallalausum fjárlögum á þessu ári var þegar Alþingi ákvað að víkja frá ályktuninni frá 2012, draga hækkunina til baka og fylgja þannig einni af tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. Þetta var ekki auðveld ákvörðun, enda er þróunarsamvinna afar mikilvæg, en við verðum að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað ríkisins. Því sjáum við ekki enn tækifæri á að hækka framlagið aftur. Frumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 gerir því ráð fyrir að halda hlutfallinu í 0,22% og stefnir utanríkisráðherra á að leggja fram nýja tillögu á þessu þingi um framlög til þróunarsamvinnu næstu árin.

Framlög til hinnar eiginlegu utanríkisþjónustu, þ.e. aðalskrifstofunnar og sendiskrifstofu, eru um þriðjungur af heildarframlögum til utanríkismála eða vel innan við 1% af ríkisútgjöldum. Utanríkisþjónustan þurfti að takast á við meiri hagræðingu en önnur ráðuneyti í síðustu fjárlagagerð, sem hún hefur gert. Utanríkisþjónustan hefur því lagst á árarnar við að hagræða undanfarið ár. Starfsfólki hefur fækkað svo tugum skiptir og hagrætt hefur verið í rekstri. Stór hluti útgjalda vegna utanríkismála tengist beint samningsskuldbindingum Íslands. Um er að ræða framlög til hinna ýmsu alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að, t.d. Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Norrænu ráðherranefndarinnar, Atlantshafsbandalagsins og svo má lengi telja. Einnig er kostnaður vegna þátttöku Íslands í EES-samstarfinu, þar er framlag til EFTA-skrifstofunnar, -dómstólsins og -eftirlitsstofnunar, kostnaður vegna þýðinga á EES-löggjöf og framlag í Uppbyggingarsjóð EFTA. Þessi kostnaður er óumflýjanlegur á meðan Ísland er aðili.

Utanríkismálin eru margbreytileg og víða þarf að huga að hagsmunum Íslendinga. Því er mikilvægt að við séum og horfum til þess að vera sjálfstæð þjóð í alþjóðavæddum heimi og þetta fjárlagafrumvarp endurspeglar það, þ.e. agi í fjármálum og við erum að byggja grunn að því að geta vaxið á nýjan leik.