144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi telja það skynsamlegt, fyrst vinnan er ekki komin lengra en þetta við endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu, að bíða með svo stórar breytingar eins og hækkun á neðra þrepi úr 7% í 12. Ég held að það sé mikilvægt að vita hvert stefnan er tekin áður en farið er í leiðangurinn. Ég held að það séu svolítið augljós rök fyrir því. Það kemur mér satt að segja á óvart að vinnan sé ekki komin lengra, að ekki sé skýrari mynd til í huga hæstv. ráðherra á því hvert er lokatakmarkið.

Varðandi einföldunina, þá er mikið talað um ferðaþjónustuna í því efni. Ég heyri þær raddir innan úr ferðaþjónustunni að þar kalli margir eftir því að fá að vera í einu þrepi með allt saman og þá í hærra þrepinu, það yrði einfaldara, mundi gera lífið einfaldara. Það er gerð krafa um réttlátan aðlögunartíma í því. Það er hækkun sem fer út í verðlagið til erlendra ferðamanna á tímum þar sem er hagstætt gengi og rík eftirspurn, jafnvel of mikil eftirspurn eftir landsins gæðum. Það hljómar í mínum huga sem skynsamleg aðgerð bæði til einföldunar og til tekjujöfnunar, en það er ekki verið að stíga þau skref hér.

Það er mikilvægt líka að horfa á aðrar þjóðir í þessum efnum. Við erum núna í 16. sæti með lægra þrepið af 30 Evrópuþjóðum. Ef við gerum þessa breytingu verðum við í 10. sæti. Það vekur athygli mína að vel flest eru með lægra efra þrep, 23 ríki eru með lægra efra þrep. Þannig að ef þessi breyting yrði gerð (Forseti hringir.) yrðum við með eitt hæsta efra þrepið og meðal tíu efstu með neðra þrepið. Þannig að við erum að stíga skref í átt til þess að verða með (Forseti hringir.) einhvern hæsta virðisaukaskatt af Evrópulöndum með þessu.