144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið óvenjulegt að sá sem er í andsvari sé spurður en allt í lagi, ég skal svara því.

Það vill svo til að þeir sem eru orðnir aldraðir eru líka með eldgamlan ísskáp og þeir eru með eldgamla þvottavél og eldgamla (Gripið fram í.) — ókei, já, kannski þurfa menn ekki eldavél, já, (Gripið fram í.) inni á heimilinu. Og hvað skyldi gerast? Þessi tæki bila. Þá þurfa menn að kaupa þau og þau lækka nú um 17–20% hjá þessum öldruðu. Er það ekki jákvætt, herra forseti? Ég spyr hv. þingmann.

Ég vil spyrja hann út í það sem ég kom inn á áðan, þ.e. könnunina sem segir að oft sé lánað fyrir því sem fólk ráðstafar, eyðslunni. Námsmenn fá til dæmis lánað fyrir framfærslu og það skekkir allar þessar kannanir. Kannski þurfum við að skoða þessa könnun án námsmanna eða telja lánin þeirra með ráðstöfunartekjum. Þá getur vel verið að við finnum út hverjir eru raunverulega fátækir í þjóðfélaginu, því að námsmenn fá nokkuð góð lán, sérstaklega ef þeir eru barnmargir, þeir fá lánað fyrir börnin líka, umtalsvert. Ég held að nefndin þurfi að leggjast í þá vinnu að brjóta þessa könnun Hagstofunnar betur niður og finna út úr því hvort það séu einhverjir hópar sem eru virkilega með lágar ráðstöfunartekjur og þurfa þá sérstakrar verndar við og það verði þá gripið til frekari aðgerða ef það sýnir sig að barnabæturnar gera það ekki.