144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það er samt eitt sem angrar mig aðeins við svar hæstv. ráðherra sem ég fæ ekki alveg til að ganga upp. Ef menn eru ekki tilbúnir til að fara í lántökur til að halda þessari uppbyggingu áfram ætla menn engu að síður að halda áfram að ganga á sjóðinn inn í rekstur hjúkrunarheimila sem þýðir að þá er minna fé til uppbyggingar í sjóðnum. Hvar ætla menn að fá fjármunina í uppbygginguna? Þar liggur vandinn.

Meðan við erum að fara í gegnum þetta mál í nefnd þurfum við að draga þessar upplýsingar fram og fá fram með hvaða hætti menn ætli að ráðast í uppbyggingu. Ef það er ekki gert með lántökum og ef áfram er gengið á framkvæmdasjóðinn, með því að nota fjármuni þaðan í rekstur, þá er orðið ansi þröngt um fjármögnun á uppbyggingunni.

Þannig að ég kannski velti því hér upp við hæstv. ráðherra, og líka við þá sem sitja í nefndinni og munu fjalla um þetta mál, að menn geri einhverja greiningu á þessu þannig að þetta liggi fyrir áður en menn afgreiða málið héðan út; og þá kannski líka setja mörk á það hversu mikið af sjóðnum megi nota í rekstur þannig að þetta sé ekki bara opinn tékki eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurningu mína. Ég veit að ráðherra er búinn að boða að komið verði inn á það. Þegar um jafn viðkvæmt mál og aukna kostnaðarþátttöku þeirra sem þurfa á miklum lyfjum að halda er að ræða — og við vitum það sem vorum í síðustu ríkisstjórn að þetta er erfitt og kemur þungt niður á fólki svona hækkanir og aukin greiðsluþátttaka þeirra — þá skiptir máli að við fáum að heyra einhverjar sviðsmyndir eða hugmyndir um hvaða áhrif þetta getur haft á þá sem þurfa á lyfjum að halda. Og (Forseti hringir.) ef hæstv. ráðherra er ekki með þær á takteinum vil ég líka brýna nefndina að kalla eftir þeim upplýsingum þannig að fólk viti, þegar lögin eru samþykkt, hvaða áhrif þetta muni hafa á rekstur heimila þar sem menn þurfa mikið á lyfjum að halda.