144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningur Fiskistofu.

[15:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hvernig eru 3 milljónir fundnar? Hvað með störf sem hafa flust frá landsbyggðinni og greiðslur fyrir það fólk í bæinn? Í morgun hringdi í mig maður og sagði mér að þegar ratsjárstöðin á Hornafirði var lögð niður hefðu 50–60 manns, 3–4% af íbúunum, flutt suður með einni ákvörðun Alþingis. Sú umræða fór aldrei fram í þingsölum og aldrei í fjölmiðlum. Hún hafði gríðarlega mun meiri áhrif á það samfélag en það sem við erum að tala um hér.

Allt er þetta viðleitni til að gera sem best við starfsfólkið sem eðli máls er í erfiðri stöðu. Við höfum sagt að áformin snúist ekki eingöngu um hagræðingu þó að það sé mjög líklegt til lengri tíma að svo verði. 3 milljóna upphæðin er fundin með þeim hætti að þetta eru meðallaun á Fiskistofu í þrjá mánuði og kostnaður við ráðningarferli þannig að þetta er skynsamlegt frá hendi ríkisins. Því fleiri starfsmenn sem flytjast norður (Forseti hringir.) og fá þennan styrk, þeim mun betra er það fyrir starfsfólkið og mannauð stofnunarinnar. Það er hagkvæmt fyrir ríkisvaldið og auk þess leið sem víða hefur áður verið farin í öðrum löndum (Forseti hringir.) og talsvert önnur en sú sem hefur því miður verið farin hér innan lands þar sem menn hafa notað þau rök að þegar stofnanir (Forseti hringir.) fara frá höfuðborgarsvæðinu og annað hafa menn borgað kostnað við akstur óendanlega fram í tímann og það er miklu dýrara en einskiptisgreiðsla upp á 3 millj. kr. til handa starfsfólki.