144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

byggingarvörur.

54. mál
[14:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að á síðasta kjörtímabili vorum við framsóknarmenn nokkuð ötulir að benda á að sú ríkisstjórn sem hv. þingmaður var ráðherra í sem utanríkisráðherra kom hér oft inn með mál sem voru ekki aðeins innleiðing tilskipana til að við uppfylltum skilyrði EES-samningsins heldur hafði hún sett ýmislegt annað inn í frumvörpin sem höfðu ekkert með innleiðingu (Gripið fram í.) gerða EES-samningsins að gera eða gengu miklu lengra og þrengdu skilyrði almennings og fyrirtækja í landinu til þess að starfa með eðlilegum hætti.

Gegn þessu börðumst við ötullega, bæði þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni. Hvort við ötuðumst eins og naut í flagi, það má vera smekksatriði hvort mönnum hafi fundist það. Ég held að við höfum aldrei brugðið fæti fyrir þau mál sem skiptu miklu máli fyrir þjóð og almenning að kæmust hér í gegn og miklir hagsmunir voru í húfi. Ég held meira að segja að á tímabili höfum við látið slík mál fara hér í gegn þótt okkur væri kannski þvert um, eins og við þurftum stundum að gera, samanber það sem ég minntist á með ryksugurnar í fyrra andsvari. Það hljómar auðvitað hálfgalið að við séum að setja slík skilyrði í íslenskar reglur vegna þess að þeir í Evrópu framleiða rafmagn með kolum og gasi og alls kyns ólundanum, meðan 85% af okkar orku er endurnýjanleg.

Varðandi þann tíma sem nefndin og þingið þarf að taka í þetta er ég sammála þingmanninum. Að sjálfsögðu þarf þingið að vanda sig og leita að því hvort við séum að einhverju leyti að ganga hér of langt og hvort það sé á einhvern hátt hægt að fara betur yfir og lagfæra. Ég treysti þingnefndinni, umhverfis- og samgöngunefnd, fyllilega til þess og öðrum þingmönnum að ljúka þessu máli. Auðvitað viljum við ekki lenda í óþarfa dómstólakostnaði hjá EFTA-dómstólnum (Forseti hringir.) út af einhverjum óþarfa. Það veit ég að hv. þingmaður er sammála mér um.