144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í umræðunni um þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram af þingflokki Samfylkingarinnar. Ég get að stærstum hluta tekið undir þær tillögur sem eru reifaðar og tel brýnt að halda því til haga að grípa þarf til aðgerða í byggðamálum á landsbyggðinni ef ekki á að fara illa.

Það kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar áðan að hann undraði sig á því að verið væri að leggja fram slíka tillögu og að sá þingflokkur sem leggur hana fram, nýkominn úr ríkisstjórn til þess að gera, skuli gera það. Hverju stöndum við frammi fyrir, núverandi stjórnarandstöðuflokkar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin?

Við höfum horft upp á það í tvennum fjárlögum að ráðist er harkalega að landsbyggðinni. Vissulega hefði maður viljað sjá miklu meiri fjármunir fara í ýmis uppbyggileg verkefni á landsbyggðinni sem höfðu verið trössuð í 18 ár áður en hrunið varð. Það hefur vissulega verið talað fjálglega um byggðamál í fjölda ára, lagðar fram mjög metnaðarfullar byggðaáætlanir sem held ég flestir í öllum flokkum hafi getað tekið undir, með einstökum undantekningum eins og heyrðist áðan hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. Því miður hafa fjármunir ekki fylgt sem skyldi þeim metnaðarfullu tillögum, þess vegna stöndum við í þeim sporum að á vissum svæðum á landsbyggðinni er verið að heyja mikla varnarbaráttu. Þegar ríkissjóður er loksins að rétta eitthvað úr kútnum eftir mjög sársaukafullar og erfiðar aðgerðir, en aðgerðir sem drógu okkur í land sem þjóð, og við farin að sjá að hægt sé að leggja fé í ýmis mál sem við höfðum ekki efni á eftir hrunið velur þessi ríkisstjórn að skera hressilega niður á landsbyggðinni.

Það er ekki af einhverri meinbægni sem ég sem stjórnarandstöðuþingmaður tala svona. Flokksbræður þeirra sem núna verma valdastólana hafa gagnrýnt harðlega bæði fyrri fjárlög og núverandi fjárlög vegna þess að verið er að skera niður í samgöngumálum, í sóknaráætlun og til heilbrigðismála og fara í aðgerðir þvert á vilja margra sveitarfélaga varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana. Það er verið að skera niður til framhaldsskólanna, innanlandsflugsins, jöfnun orkukostnaðar, það er ekki fyrirséð hvar það endar. Svona mætti lengi telja. Þess vegna er ekki skrýtið að þingsályktunartillaga sem þessi komi fram. Mér finnst mjög eðlilegt að við þingmenn skoðum vel hvað þarna er á ferðinni.

Eins og ég sagði áðan get ég tekið undir mjög margt í henni og þar eru mjög góðar hugmyndir sem fylgja ætti eftir. Ég segi það líka að ef fráfarandi ríkisstjórn væri nú við völd þyrftum við ekki á þingsályktunartillögu sem þessari að halda, sem vísar til þess að það þurfi bráðaaðgerð á landsbyggðinni, því að við værum í allt öðrum sporum. Við vorum farin af stað í uppbyggingarfasa varðandi fjárfestingaráætlun sem var metnaðarfull og var fjármögnuð, en hvað velur þessi ríkisstjórn að gera? Að skera niður tekjupósta upp á tugi milljarða króna hjá þeim sem hafa það best í þessu þjóðfélagi, stórútgerðinni í landinu og auðmönnum landsins. Þetta er forgangsröðunin. Það er ágætt að hún komi skýrt fram og vonandi að sem flestir kjósendur þessara flokka hugsi sig tvisvar um þegar þeir ganga að kjörborðinu næst, hvort þetta sé virkilega það þjóðfélag sem við viljum sjá til framtíðar, að þetta sé forgangsröðunin.

Ég sé það að mörgum framsóknarmönnum, hv. þingmönnum, er farið að líða frekar illa undir þessari umræðu vegna þess að í hjarta þeirra er ákveðinn ágreiningur við marga frjálshyggjupostula Sjálfstæðisflokksins í áherslum um jöfnuð í landinu. Ég tel rétt að þeir komi undan feldi sínum, eins og þeir hafa verið að gera undanfarna daga, og lýsi yfir sjálfstæðum skoðunum. Gamla framsóknarhjartað vaknaði upp af þyrnirósarsvefni hjá sumum. Þeir vilja ekki sjá að áfram sé aukið á misskiptingu í landinu, hvorki meðal almennings né milli landshluta. Það er því miður mikil misskipting í landinu á milli ýmissa svæða. Ég segi ekki að það eigi við alls staðar. Sem betur fer eru til burðarsvæði í landinu sem hafa spjarað sig vel í skjóli þess að þau eru þannig staðsett að þar hefur byggst upp öflugt atvinnulíf og þjónustukjarnar, en þetta á því miður ekki við um mörg önnur svæði sem hafa goldið fyrir stjórnvaldsaðgerðir sem kippa lífsbjörginni frá þessum svæðum. Það á við á svo mörgum sviðum. Það er ekki náttúrulögmál að fólk frá ýmsum stöðum á landsbyggðinni taki þá oft erfiðu ákvörðun að flytja frá heimabyggð sinni og skilja eftir allt það sem það hefur lagt fyrir á langri ævi í uppbyggingu heimilis og öðru. Sú uppbygging hefur orðið að nær engu þegar upp er staðið og fólk þarf að fara frá eignum sín hálfverðlausum. Fólk gerir það ekki með gleði í hjarta. Allt hjálpast þetta að.

Þess vegna finnst mér mjög undarlegt þegar hv. þingmenn eins og Vilhjálmur Bjarnason, svo ég nefni hann aftur, tala á þeim nótum að engin ástæða sé til að hafa jöfnuð í þessu landi.

Við erum þjóð sem á sameiginlegar auðlindir, sem er fiskurinn í sjónum, vatnið, jarðhitinn og fleira, sem við eigum að geta nýtt í uppbyggingu öllum landsmönnum til góða, ekki aðeins fyrir einangruð svæði heldur til þess að efla og byggja upp öflugt samfélag. Þau svæði sem frá náttúrunnar hendi hafa ákveðnar auðlindir nálægt sér eiga líka að geta notið þeirra á eðlilegan hátt, að það gangi ekki allt kaupum og sölum og fólki sé bannað að bjarga sér. Fólk á að geta nýtt þær auðlindir sem eru næst hverri byggð skynsamlega, því að það hlýtur að vera hagræði í því að landkostir hvers landsfjórðungs séu nýttir af því fólki sem þar býr. Hagfræði mín segir að minnsta kosti að það hljóti að vera, en ekki að lögmál markaðarins gildi á öllum sviðum atvinnulífs og byggða því að það hefur komið sér illa fyrir byggðir landsins.

Ég vil segja það að lokum að það er mjög gott mál að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur vakið athygli á þessum brýnu málum. Við eigum að ræða þessi byggðamál mikið og sérstaklega fyrir þá hv. þingmenn sem hafa ekki neinn skilning á byggðamálum, þeir hafa gott af því að hlusta á þessa umræðu.