144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

bráðaaðgerðir í byggðamálum.

19. mál
[17:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða þessa þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar sem hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, fór svo ágætlega yfir áðan. Hún ber vissulega titilinn Bráðaaðgerðir í byggðamálum sem hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, finnst svona bráðfyndinn.

Ég tek undir það sem aðrir hafa sagt hér, það er auðvitað ekkert annað en bráðaaðgerðir sem þurfti að grípa til þegar við vorum búin að sjá byggðastefnuna sem birtist í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014. Hún var afar slæm og enn er haldið á sömu braut í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir og á að gilda fyrir árið 2015.

Ég vil fara yfir þrjá punkta af þeim 11 sem hér eru settir fram. Allir eru þeir afar mikilvægir. Ég er ekki að taka þessa þrjá punkta út af því að þeir séu endilega mikilvægastir, en mér finnst rétt að hnykkja aðeins betur á því sem þar kemur fram.

Í fyrsta lagi er 1. punkturinn, um að byggt verði áfram á aðferðafræði sóknaráætlana landshluta og fjárheimildir sem nú eru vistaðar í ólíkum ráðuneytum sameinaðar. Aukið fjármagn verði veitt til sóknaráætlana og lykiláhrif heimamanna á úthlutun þess tryggð.

Þannig er mál með vexti að vinna við sóknaráætlanir landshluta fór fram allt síðasta kjörtímabil. Margir lögðu í það mikla vinnu, allir sveitarstjórnarmenn, lykilstarfsmenn stofnana í landshlutunum og fleiri söfnuðu gögnum til þess að svara lykilspurningum um landsvæðið, raða málefnum í forgangsröð o.s.frv. til að undirbyggja sóknaráætlun fyrir hvern landshluta fyrir sig. Hugmyndin var sú að sveitarfélögin og landshlutarnir yrðu virkari í fjárlagagerðinni og að það yrði farið eftir þeirri forgangsröðun sem heimamenn setja fram. Nýir peningar upp á 400 milljónir voru settir fyrir árið 2013 í sóknaráætlanir landshluta sem þverpólitísk sátt var um.

Það sem síðan gerðist í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 var að sóknaráætlanir landshluta voru þurrkaðar út. Þær voru bara þurrkaðar út. Auðvitað risu sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum um allt land upp á afturfæturna og mótmæltu og að lokum, fyrir afgreiðslu frumvarpsins, voru settar inn 100 milljónir. En hvað gerist aftur núna í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015? Sóknaráætlanir landshluta eru þurrkaðar út. Það getur verið að hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins finnist þetta bráðfyndið en það finnst sveitarstjórnarmönnum um allt land ekki. Auðvitað á að styrkja sóknaráætlanir landshluta og það er það sem Samfylkingin leggur til.

Í öðru lagi vil ég ræða um 3. punkt sem hljóðar þannig:

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi sem fyrst frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld sem tryggi sjávarbyggðum hlutdeild í tekjum af sérstöku veiðigjaldi og tryggi að aukinn byggðakvóti fari til Byggðastofnunar til að sinna verkefnum tengdum brothættum byggðum.

Það er samhljómur í þessum punkti og þingsályktunartillögu sem við hv. þingmenn Kristján L. Möller og Guðbjartur Hannesson lögðum fram á síðasta þingi. Í þeirri þingsályktunartillögu, alveg eins og með þessum punkti, er byggðaáhersla en einnig sú viðleitni að skapa sátt um veiðigjaldið. Veiðigjaldið hefur, eins og við þekkjum, skapað alls konar deilur en það sem greinin þarf sem og sjávarbyggðirnar er sátt um veiðigjaldið og greinina í heild. Liður í því að skapa þá sátt er að sveitarfélögin fái hlutdeild í veiðigjaldinu. Sá hlutur yrði nýttur til þess að styðja við atvinnugreinar í sveitarfélögunum, skapa meiri fjölbreytni og nýsköpun, bæði í sjávarútvegsgreinum og öðrum greinum, og þannig bæta atvinnuástandið í sveitarfélögunum.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ræða síðasta punktinn sem er númer 11. Þar vil ég sérstaklega tala um styrkingu sem Samfylkingin leggur til með þessari þingsályktunartillögu, að framhaldsskólarnir í landinu verði styrktir til að mæta menntunarþörf á þeim svæðum þar sem þeir starfa. Það er afar mikilvægt að það verði gert. Það er mikilvægt byggðamál að aðgengi að menntun úti um allt land sé gott, eins gott og mögulegt er. Það hefur gerst með fleiri skólum úti um land.

Virðulegi forseti. Það sem ég hef miklar áhyggjur af er stefnubreyting bæði hvað byggðastefnu varðar og menntastefnu sem birtist í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015. Þar er gert ráð fyrir að aðgengi að framhaldsskólum sé takmarkað þannig að 916 færri ársnemendur verði í skólanum á árinu 2015 en á árinu 2014.

Það er rætt um að það þurfi að vera forgangsröðun inn í skólana og að nýnemar eigi að hafa forgang. Það er ágætt en jafnframt er sagt að þeir sem eldri eru og vilja fá aðgang að skólanum geti ekki gengið að skólavist vísri. Þetta mun koma mest og harðast niður á starfsmenntaskólum þar sem meðalaldur á starfsmenntabrautum í framhaldsskólum er rúmlega 25 ár og síðan mun þetta koma niður á framhaldsskólum úti um landið sem hafa einmitt sinnt menntunarþörf á svæðinu. Það er verið að beina ungu fólki utan af landi í einkaskóla suður með sjó eða á Bifröst ef það vill ná sér í stúdentspróf. Segjum að 22 ára gamall maður sem flosnað hafði upp úr framhaldsskóla við 17 ára aldur, eins og er því miður algengt, og of algengt hér á landi miðað við nágrannalönd, vilji ná sér í stúdentspróf. Hann getur ekki sótt skóla í heimabyggð vegna þess að það er búið að takmarka aðgengi að honum, en honum er ráðlagt að flytja til dæmis á Suðurnes eða á Bifröst með ærnum tilkostnaði og síðan lánar Lánasjóður íslenskra námsmanna honum fyrir skólagjöldunum og framfærslu. Þarna bætist tveggja ára lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna við framhaldsnámið sem hann hyggst fara í og sennilega mun hann ekki ná að greiða það upp. Þegar verið er að takmarka aðgengi að opinbera skólakerfinu og vísa á einkakerfið hljótum við að verða að reikna út sparnaðinn, eða er hugsanlega bara aukinn kostnaður fyrir ríkið að fara svona að? Vissulega er það tjón fyrir landsbyggðirnar þegar aðgengi að menntun í heimabyggð verður verra og vafalítið munu einhverjir, sem verður hafnað á þessum forsendum, hætta við að fara í nám.

Virðulegi forseti. Ég er hlynnt því að stytta námstíma til stúdentsprófs en ég er á móti því að sveigjanleikinn sé tekinn úr framhaldsskólakerfinu, sveigjanleikinn sem hefur verið aðalsmerki þess.

Við búum því miður við mikið brottfall. Sú menntastefna sem er birt í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er að það eigi að segja við brottfallsnemendur: Þið eruð orðnir of gamlir þegar þið eruð orðnir 25 ára eða á aldrinum 20–25 ára.

Þá á ekki að gefa þeim tækifæri í opinbera kerfinu til að auka við menntun sína. Þetta mun hafa áhrif á menntunarstig þjóðarinnar og það mun hafa slæm byggðaáhrif ef þetta nær fram að ganga.