144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu um þetta mál nú en þeim mun meira verður um það rætt nái málið fram að ganga og hljóti það samþykki Alþingis fyrir mitt næsta ár vegna þess að tillaga okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hv. þingmanns Pírata, Birgittu Jónsdóttur, gengur út á það að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu og að atkvæðagreiðslan fari fram eigi síðar en um mitt ár 2015.

Þetta þingmál horfir fram á við. Við gerum að sönnu grein fyrir sögunni, aðdraganda þess að við Íslendingar gerðumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu, NATO, og þeim miklu hræringum sem það hafði síðan í för með sér. Hér voru miklar mótmælaaðgerðir 30. mars 1949 þegar Alþingi samþykkti aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og í kjölfarið voru 24 einstaklingar dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Þyngsti dómurinn sem kveðinn var upp í undirrétti var 18 mánuðir. Hæstiréttur stytti hann í 12 mánuði, skilorðsbundið. Þar var um að ræða varaforseta Alþýðusambands Íslands og formann Hins íslenska prentarafélags. Þarna voru menn menningar, baráttumenn fyrir réttindum verkalýðsins og margvíslegum lýðréttindum enda fór svo að það var efnt til undirskriftasöfnunar þeim til stuðnings. Árið 1952 voru þessar undirskriftir afhentar forseta Íslands. Undirskriftirnar voru 27.364. Það var mikill fjöldi á þeim tíma.

Ég nefni þetta til að minna okkur á hversu hatrammar þessar deilur voru á sinni tíð og hve mikinn svip þær áttu eftir að setja á allt þjóðlífið og alla stjórnmálaumræðu á næstu áratugum. Þjóðin skiptist í fylkingar með eða á móti hernum og það var ekki fyrr en múrinn féll og Varsjárbandalagið leystist upp sem menn fóru að horfa til þess og viðurkenna að það væri komin ný heimsskipan.

Bandaríkjamenn áttuðu sig á þessu löngu á undan íslenskum ráðamönnum og vildu gjarnan losa herinn héðan af Miðnesheiðinni en það var beðið um að hann færi eins seint og kostur væri af atvinnuástæðum og eflaust öryggisástæðum líka í hugum einhverra. Ég ætla ekki að gera lítið úr viðhorfum manna á hvorn veginn sem var þótt ég hafi verið eindreginn NATO-andstæðingur og fagnað því mjög þegar herinn fór héðan af landi brott.

Þetta er sem sagt liðin tíð.

Nú erum við að horfa inn í nýjan heim. Ríkisstjórn Íslands ákvað í byrjun árs 2012 að setja niður nefnd um öryggisstefnu Íslendinga. Hún skilaði áliti þar sem sett var í forgang að við ættum í okkar stefnumótun að snúa okkur að borgaralegum verkefnum, svo sem umhverfisvá, netógn og náttúruhamförum, en síður að hinu hernaðarlega. Um þetta varð engu að síður ágreiningur og þann ágreining viljum við setja í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum skjóta þessu stóra ágreiningsefni til þjóðarinnar.

Ég hygg að það væri mjög hollt fyrir okkur Íslendinga að taka þessa umræðu. Viljum við vera hluti af hernaðarvél? Við gleðjumst mörg iðulega yfir því að Ísland skuli vera herlaus þjóð. Ég hef aldrei glaðst yfir þessu. Mér finnst þetta sjálfum aumasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér, að taka þátt í hernaðarbandalagi, taka þátt í ákvörðunum um að senda ungt fólk í stríð en vilja ekkert gera sjálfur. Þetta hefur mér alltaf fundist versti vesaldómurinn.

Þess vegna finnst mér við standa frammi fyrir því hvort við viljum hervæðast, taka þátt í hernaðarmaskínunni og bera höfuðið hátt eða hvort við eigum að halda áfram þessum sýndarleik um herlausu þjóðina sem sendir unga fólkið í stríðið en er ekki tilbúin að axla neina ábyrgð sjálf.

Ég held að það væri mjög hollt fyrir okkur að taka þessa umræðu.

Ég ítreka að ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Ég vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni upp á tvær síður með sögulegum skírskotunum þar sem vikið er að þessari nefndarskipan um þjóðaröryggisstefnuna og hvers vegna við teljum brýnt að endurmeta afstöðu okkar núna.

Ég vil bæta því við áður en ég lýk máli mínu að NATO hefur verið að gera slíkt hið sama. Allan tíunda áratuginn sátu menn á rökstólum innan NATO um það hvernig NATO ætti að laga sig að breyttri heimsmynd. Það fékkst ákveðin niðurstaða. Hún var mjög skýr. Í stað þess að staldra við það ákvæði NATO-sáttmálans sem segir að árás á eina þjóð sé árás á allar skyldum við víkka skilning okkar út og horfa til ógnarinnar. Ef einu ríki er ógnað er öllum ógnað. Hverjum verður líklegast ógnað í heiminum? Skyldu það vera þeir sem ásælast olíuauðlindir eða aðrar auðlindir? Skyldu það vera þeir sem fara með hernaði og hugsanlega ofbeldi í þágu sinna eigin hagsmuna? Gæti það verið? Gæti verið að þetta skipti okkur Íslendinga þess vegna miklu máli þegar búið er að breyta sjálfum grunninum hvað þetta snertir, að það gæti verið okkur mikið hagsmunamál hver er forseti Bandaríkjanna, hvort það er tiltölulega friðsamur maður sem vill friðsamlega sambúð — slíkir Bandaríkjaforsetar hafa verið til — eða haukar eins og George Bush? Auðvitað skiptir það okkur máli. George Bush er líklegur til að verða ógnað vegna stefnu sinnar og hagsmunagæslu og þá erum við, litla Ísland, með í spyrðunni eins og náttúrlega átakanlegast var og við gleymum seint þegar við vorum flokkuð sem eitt af viljugu ríkjunum sem sérstakir stuðningsaðilar við innrásina í Írak.

Þetta er hin breytta mynd sem er að verða. Það var í þessum anda sem ákveðið var, ekki nýlega heldur á afmælisfundinum 1999, hálfrar aldar afmæli, og svo einnig á Prag-fundinum eftir aldamótin, að NATO ætti að vera hreyfanlegra, það ætti að koma sér upp hreyfanlegum hersveitum. Nú er rætt um 4 þús. manna herlið af þessu tilefni.

Hæstv. forseti. Ég ætla að standa við það sem ég sagði í upphafi, ég ætla ekki að flytja langa ræðu. Ég vona að mér gefist tilefni til að flytja langar ræður á mörgum fundum þegar Alþingi hefur samþykkt þessa góðu þingsályktunartillögu.