144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu.

20. mál
[19:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú sat ég ekki á þingi þegar verið var að ræða aðdragandann hér, þegar stríðið í Líbíu skall á, og tók þar af leiðandi ekki þátt í umræðunni héðan úr þingsal. Ég fylgdist hins vegar með þeim sem leikmaður utan úr bæ. Ég skal vera alveg hreinskilin með það að þar fannst mér málum vinda fram með óskaplega undarlegum hætti og orð og tungutak, sem ég taldi mig skilja, reyndist síðan þýða eitthvað allt annað þegar að kom í praxís, ef svo má segja.

Það breytir ekki því að eftir því sem málum vatt þar fram hefði ég haldið að við hefðum átt að ganga miklu harðar fram í því að mótmæla og segja: Nei, hér erum við komin út á kolranga braut. Við héldum kannski upphaflega að við værum að stíga rétt skref en þetta þróaðist í einhverja allt aðra átt. Mér finnst að þingið og hæstv. utanríkisráðherra, eða í raun hver sem er í ríkisstjórn Íslands, hefðu átt að tala þar miklu skýrar fyrir því að við mundum vinda ofan af því sem þar var að gerast og tala fyrir friðsamlegri lausn. Það var í það minnsta sem ég sem einstaklingur úti í bæ hugsaði þegar öllu þessu vatt fram.