144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

innviðir ferðaþjónustunnar, tekjuleiðir og gjaldtaka.

[11:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það sem allir eru sammála um er að við ætlum að taka höndum saman. Að öðru leyti líður mér einmitt, eins og síðasti hv. þm. Halldóra Mogensen sagði, hún notaði orðið „brainstorm“, eins og við séum á hugarflugsfundi. Ráðherra setti upp ýmsa gula miða í ræðu sinni og nefndi ýmsar leiðir. Hv. samflokksmaður ráðherra, Jón Gunnarsson, kom og viðraði verulegar efasemdir um þá leið sem hæstv. ráðherra hefur talað fyrir.

Menn ræða hér að þeir vilji styrkja almannarétt og ég hef ekki orðið vör við annað en að allir vilji styrkja þann rétt. Ég held að það sé feikilega mikilvægt að við tökum þá grundvallarumræðu. En þá getum við ekki rætt um það að við ætlum að greiða fyrir afnot af náttúrunni. Við getum rætt um það að við greiðum fyrir þjónustu. En ef við ætlum að styrkja almannaréttinn þá snýst hann einmitt um það að við njótum náttúrunnar og eigum rétt til frjálsrar farar um landið eins og verið hefur í lögum allt frá tímum Jónsbókar og hefur verið ítrekað í náttúruverndarlögum og er meira að segja, eins og ég sagði, til umræðu núna sem hugmynd í stjórnarskrá.

Mér finnst við kannski enn vera á því stigi, og ég ætla ekkert að fara að ræða hversu lengi það hefur varað, að það er mikil óvissa. Á meðan er staðið að gjaldtöku úti um allt land og víðast hvar má að minnsta kosti efast um lögmæti hennar. Við horfum á niðurskurð í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í fjárlagafrumvarpi ársins og við höfum séð mikinn niðurskurð til landvörslu. Eigi að síður segjumst við öll vilja taka höndum saman um að styrkja innviði.

Ég veit að hæstv. ráðherra ætlar að ræða sérstaklega um tengslin við almannarétt í síðari ræðu sinni. Það er eitt af þeim grundvallaratriðum sem við þurfum að ræða. En ég brýni hæstv. ráðherra til að nýta þann vilja sem hér kemur fram til samráðs, til að ná þeim markmiðum sem við virðumst vera sammála um að ná, án þess að gengið sé gegn þeim grundvallarréttindum sem ég hef hér gert að umtalsefni.