144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og mér liggur við að segja þó fyrr hefði verið. Það hefði auðvitað verið æskilegast ef aldrei hefði komið rof í löggjöfina sem sett var 2010, sem hér er réttilega viðurkennt að byggt sé á, ef mönnum hefði unnist tími til að gera eftir atvikum á því lagaverki einhverjar breytingar ef þess var þörf, m.a. vegna athugasemda eða athugana ESA á fyrirkomulaginu, og gert þær breytingar fyrir árslok í fyrra, fyrir árslok 2013, þannig að við hefðum haft þessa rammalöggjöf samfellt í gildi. Það hefur meðal annars leitt til þess, eins og kunnugt er, að hæstv. ráðherra hefur orðið að koma hér inn með sérfrumvarp um einn eða kannski tvo tiltekna fjárfestingar- eða ívilnunarsamninga sem ella hefði væntanlega ekki þurft.

Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum lagaramma utan um þessa aðstoð. Það getur vel verið að það verði meira og minna viðvarandi verkefni að laga hann svo eitthvað til, ég tala nú ekki um ef evrópska regluverkið á þessu sviði er allt á fleygiferð á sama tíma, ríkisaðstoðarreglurnar og byggðakortið og allt það sem þarna skiptir máli. En það breytir auðvitað ekki því að við erum væntanlega að setja þessi lög af því við erum sannfærð um að mikilvægt sé að Ísland hafi þennan möguleika, vel skilgreindan og skýran í lögum. Það einfaldar líka mjög hlutina að til staðar sé rammi sem liggi fyrir þannig að þeir sem eru að skoða Ísland sem fjárfestingarkost eða þá aðilar hér heima fyrir viti að hverju þeir ganga í þeim efnum.

Gamla fyrirkomulagið var náttúrlega ekki til fyrirmyndar á nokkurn hátt, þegar alltaf voru sett sérlög, klæðskerasaumuð utan um hvert verkefni og mismunandi langt gengið í hverju tilviki o.s.frv., oft í miklu pólitísku fári. Það hefur stundum viljað vera þannig á Íslandi að ef einhvers staðar fréttist af verksmiðju, ef einhver útlendingur finnst einhvers staðar sem er áhugasamur um að setja upp fabrikku þá er ævinlega látið eins og himinn og jörð séu að farast og það verði að grípa tækifærið og landa honum og nánast hvað sem það kosti. Þegar litið er til baka í þeim efnum var það ekki alltaf mjög farsælt. Má vel um það deila hvort ekki hafi verið gengið of langt í vissum tilvikum og síðan var jafnræði gagnvart öðrum sem á sama tíma nutu ekki neinnar sambærilegrar aðstoðar náttúrlega ekki fyrir að fara. Allir elstu samningar af þessu tagi voru fyrst og fremst í þágu þess að byggja hér upp erlenda stóriðju á sama tíma og lítil, jafnvel meðalstór og stór innlend fjárfestingarverkefni nutu einskis sambærilegs stuðnings. Það var í raun mismunað erlendri fjárfestingu í vil. Það er ósköp einfaldlega þannig sem það var. Það hverfur með lögunum 2010 og öll fjárfestingarverkefni sem uppfylla viss skilyrði eiga þá sama rétt í þeim efnum.

Ég held að þessi löggjöf, rammalöggjöfin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, nr. 99/2010, og svo lög sem komu á sama ári, ef ég man rétt, um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, hafi verið mikil tímamót í stuðningi stjórnvalda við nýsköpun, þróun og nýfjárfestingu í landinu. Hvort tveggja gáfu menn sér nú tíma til að gera og gerðu að lögum í því ógnarástandi sem þó var þá. Það var kannski í sjálfu sér aldrei nauðsynlegra nema þegar atvinnulífið og efnahagslífið var í miklum vanda að horfa fram í tímann og leggja grunn að uppbyggingu af þessu tagi.

Ég vek sérstaklega athygli á ákvæðum 7. gr. þar sem fjallað erum hámörkin og að þau eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða lítil eða meðalstór fyrirtæki. Þá er stuðst við hina evrópsku skilgreiningu sem vissulega, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson benti á, er í evrum þar sem fjárhæðarmörkin eru tilgreind, starfsmannafjöldinn, það er nú talið upp á íslensku. Það er auðvitað að einhverju leyti vegna þess að í sjálfu sér þurfum við að taka í íslenskum krónum talið mið af þessum evrópsku mörkum, ef þau eru ráðandi í því, og líklegt að eitt af því sem ESA líti á sé hvort stuðningurinn miðað við þessa flokkun sé í samræmi við það sem heimilt er samkvæmt lögunum og evrópsku reglunum.

Nú er það þannig að stór hluti af íslenskum fyrirtækjum lendir í þessum hópum. Þau eru örfyrirtæki, lítil fyrirtæki eða meðalstór fyrirtæki, þau sem fara þar upp fyrir eru ekki mörg hér. En ég held að þetta sé sömuleiðis skynsamlegt og eiginlega eðlilegt. Það er þá hægt að standa betur við bakið á minni fyrirtækjunum. Síðan er b-liður 7. gr. mjög mikilvægur því að þar er pósitíft viðurkennt að stuðningurinn getur tekið mið af viðbótarkostnaði sem hlýst af tiltekinni staðsetningu verkefnisins. Á mannamáli þýðir þetta auðvitað að hægt er að ganga lengra í stuðningi ef í hlut á staðsetning sem hefur í för með sér einhvern nýjan kostnað eða upphafskostnað, t.d. þar sem nýtt iðnsvæði er að verða til o.s.frv.

Þetta er held ég mjög mikilvægt upp á fordæmisgildi þess. Þegar ákveðið er að ganga lengra í einstökum tilvikum er afar mikilvægt að liggi skýrt fyrir af hverju það er, hvaða markmiðum menn eru þar að ná fram, auðvitað sem hluta af heildarmarkmiðum laganna.

Það er alltaf vandasamt þegar menn eru með lög sem byggja á meginmarkmiðum eins og hér er. Í 1. gr. segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að efla nýfjárfestingu í atvinnurekstri, samkeppnishæfni Íslands og byggðaþróun með því að tilgreina hvaða ívilnanir er heimilt að veita til nýfjárfestinga hér á landi og hvernig þeim skuli beitt.“ — Þ. e. þessum heimildum.

Svo í h-lið 5. gr. er þetta í raun skilgreint nánar:

„… að sýnt sé fram á að fyrirhuguð fjárfesting sé í samræmi við 1. gr.; í því samhengi skal taka tillit til áhrifa viðkomandi nýfjárfestingarverkefnis á atvinnusköpun, byggðaþróun, útflutning, skatttekjur, nýsköpun og útbreiðslu nýrrar tækni og þekkingar.“

Vandinn við að fara upp í svona upptalningu er alltaf hvort hún sé tæmandi og hvað þetta segi um það sem ekki er nefnt. Ég nefni þar til dæmis markmið stjórnvalda í umhverfismálum, að hlúa að umhverfisvænni tækni, grænni þróun í atvinnulífinu. Hefði það þá ekki þurft að nefnast þarna? Alla vega til þess að menn væru ekki að fara að líta svo á að þetta væri það eitt sem gæti skipt máli í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda eins og hún er á hverjum tíma og viðurkennd, eða þá að notast við almennari framsetningu á málinu.

Þetta er eitthvað sem ég held að hv. nefnd ætti aðeins að líta á. Á að láta markmiðin þarna nægja ef menn fara út í að útfæra þau frekar, eins og þarna er gert í einum staflið í 5. gr.? Þá þarf að fara vel yfir það. Er þar á ferðinni tæmandi upptalning, vantar að nefna fleira, eða á að nota þar almennari orð eins og að segja að þetta samrýmist stefnu stjórnvalda um atvinnu- og byggðaþróun og á sviði umhverfis- og efnahagsmála almennt, punktur? Þá er róið fyrir allar víkur í þeim efnum.

Stuðningurinn hér er fyrst og fremst í formi eftirgjafar á sköttum. Það eru ívilnanir tengdar sköttum og opinberum gjöldum og snýr bæði að ríki og í vissum tilvikum sveitarfélögum. Síðan geta ívilnanir verið í tengslum við að leggja til land eða lóð o.s.frv., allt innan sama rammans. Ég er alveg sammála því að setja þetta fram á þeim forsendum.

Sú er breyting þarna á og reyndar var búið að gera breytingu á eldri lögunum þar sem heimild til þess að greiða beina stofnstyrki, greiða beinlínis peninga inn í uppbyggingu á verkefni af þessu tagi, var tekin út. Það er mjög vandasamt að vera með slíka heimild. Menn sáu nú ekki alveg fyrir sér að þeir ættu mikla peninga í að ráðstafa í slíkt. Þetta gera að vísu ýmis lönd sem við erum að keppa við og þá verða menn að vera tilbúnir til þess að ganga lengra í sambandi við ívilnanir á stuðningstímanum, þessum 10 árum, 13 árum frá undirritun samnings. Ég held að reynslan af hinu sé sú að heppilegra sé að reikna með því að stuðningurinn við verkefnin sé í formi tilslakana á opinberum sköttum og opinberum gjöldum á ákveðnum upphafstíma verkefnisins fremur en að verið sé að veifa framan í menn gulrót, einhverjum möguleika á beinum peningastyrkjum inn í verkefnið. Það hefur þann stóra kost að ríkið og opinberir aðilar eru ekki að leggja út fé og það má segja að eftirgjöfin sé fórnarlaus að því leyti til að ef ekki yrði af viðkomandi verkefnum kæmu hvort sem er heldur aldrei þessar tekjur sem þarna er verið að lofa.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson benti á að það er ekki alveg vandræðalaust, sérstaklega ef menn eru í því skapi að stríða aðeins, að setja fram einhverja viðmiðun um að ívilnunin skuli ekki ganga lengra en svo að verkefnið sé orðið nægjanlega arðbært. Eru menn þá í raun hálfpartinn að lýsa því yfir að þeir séu á höttum eftir verkefnum sem þurfi stuðning til þess að þau geti orðið að veruleika?

Það er náttúrlega tekið á því annars staðar að hugsunin er sú að menn séu á þessu gráa svæði þar sem einhver verkefni verði ekki að veruleika nema þau fái tiltekinn stuðning á upphafstímanum. Það getur auðvitað verið af ýmsum fullgildum ástæðum. Það er ekki þar með sagt að viðkomandi geti ekki orðið að hinum besta rekstri þegar fram líða stundir, en það gengur kannski illa að skrúfa saman nægilega arðsemi í einhvern upphafstíma verkefnisins til þess að menn fái fjármögnun og annað í þeim dúr.

Að sjálfsögðu er síðan ekki meiningin að fara að veita ívilnanir sem leiða til óeðlilegrar arðsemi til eigenda verkefnisins. Þá þarf ekki ívilnun. Það er hugsunin. (Gripið fram í.) Já, en það er auðvitað hin hliðin á málinu að við erum að kljást við það að vera samkeppnisfær í þessum efnum og það verður ekki bæði sleppt og haldið í þeim efnum, það er vandinn.

Aðeins varðandi stjórnfyrirkomulagið á þessu. Nú er gert ráð fyrir að sérstök þriggja manna nefnd fari yfir þessar umsóknir eða svipað því sem verið hefur að einhver hópur hefur alltaf haft það verkefni með höndum. Ég þóttist heyra hæstv. ráðherra koma inn á það að svo gætu menn jafnvel útvistað arðsemismatinu og því í staðinn fyrir að það hefur verið gert með tilteknum hætti innan stjórnkerfisins. Ég get ekki sagt að ég sé neitt sérstaklega upprifinn yfir þeirri hugmynd að ráðgjafarfyrirtæki eða hinir og þessir fari að leggja mat á arðsemi mismunandi fyrirtækja. Ég held að það væri best ef einhvern veginn væri hægt innan stjórnsýslunnar að byggja upp stöðuga þekkingu á því þannig að það væru sömu aðilar sem legðu yfirleitt mat á hin ólíku verkefni og það byggðist upp fagþekking á því að leggja mat á hluti frekar en að kaupa þá þjónustu utan úr bæ, því að það er alltaf að mörgu að hyggja í svona löguðu. Það þarf stundum að leggja aðeins breiðara mat á þau verkefni og þær aðstæður sem hér er sérstaklega verið að tala um heldur en einungis hreinar viðskiptalegar arðsemisæfingar í excel-skjölum. Ég er því ekki endilega viss um að skynsamlegt sé að leggja út á þá braut með þetta og held að hitt væri alveg eins nærtækt að efla þá einingu, hvort sem það yrði Íslandsstofa eða hver sem það væri sem byggði upp fagþekkingu til að annast þá þjónustu að meta verkefnin.

Þetta voru þær hugleiðingar sem ég vildi koma á framfæri um þetta. Ég tek aftur fram að ég er ánægður með að frumvarpið sé komið fram og ég tel að við þurfum að hafa í lögum ramma af þessu tagi.