144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.

46. mál
[17:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Vatnajökulsþjóðgarður vinnur skipulega að uppbyggingu gestastofa til samræmis við ákvæði laganna sem voru sett um þjóðgarðinn, nr. 60/2007. Þar er fjallað um á hvaða stöðum meginstarfsstöðvar hans skuli byggðar. Þar hefur verið næst á dagskrá að byggja upp á Kirkjubæjarklaustri, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Þetta er mikilvægur þáttur í starfsemi og uppbyggingu þjóðgarðsins, ekki síst nú þegar sívaxandi ferðaþjónusta kallar á margföldun á öllum innviðum. Einnig er það eitt af markmiðum þjóðgarðsins að stuðla að atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á nærsvæðum hans. Skaftárhreppur er, eins og hv. þingmaður kom inn á, sveitarfélag sem stendur um margt höllum fæti, sérstaklega sakir fólksfækkunar. Skaftárhreppur er auk þess á svokölluðu köldu svæði þar sem ekki hefur fundist heitt vatn sem nýta má til húshitunar. Fyrr á þessu ári var veittur styrkur til Skaftárhrepps til kaupa á varmadælu til að hita upp skóla, íþróttahús og sundlaug sveitarfélagsins. Styrkurinn var veittur í samræmi við markmið um endurnýjanlega orku og orkunýtni í skýrslu Alþingis um græna hagkerfið. Það var eins konar frumkvöðlastyrkur.

Efla þarf innviði samfélagsins í Skaftárhreppi, svo sem með öflugu gagnaneti og aukinni áherslu á eflingu atvinnulífs, til að mynda með nýsköpun. Leiða þarf fram skoðanir heimamanna á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum. Því skiptir miklu að renna frekari stoðum undir samfélagið í þessu landstóra en fámenna sveitarfélagi. Þar skiptir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs afar miklu og er uppbygging þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri mikilvægt innlegg í þá umræðu, jafnframt því að vera afar mikilvæg fyrir starfsemi þjóðgarðsins.

Eins og fram kom hjá hv. þingmanni lágu fyrir tveimur árum fyrir hugmyndir um stórt og dýrt mannvirki upp á um það bil 900 milljónir kr. sem átti að hýsa ýmiss konar starfsemi. Ekki hafði verið hugsað nægjanlega fyrir fjármögnun þess mannvirkis og var því ákveðið að taka þær hugmyndir til frekari skoðunar. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var gert ráð fyrir að komið yrði upp upplýsinga- og þjónustumiðstöð þjóðgarðsins og var Þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri ætlað að sameina undir einu þaki gestastofur þjóðgarðsins og ýmiss konar skrifstofur. Gestastofur gegna mikilvægu hlutverki fyrir gesti þjóðgarðsins og veita ferðamönnum ýmsar gagnlegar upplýsingar. Hins vegar finnst mér skipta máli að við stöldrum við og hugleiðum hvernig best sé að takast á við þetta verkefni. Við þurfum að spyrja okkur meðal annars hvort upphæð af þessari stærðargráðu, 900 milljónum, sé best varið til byggingar á svona húsi sem hefur það hlutverk að miðla upplýsingum til ferðamanna og efla innviði friðlýstra svæða. Þar er líka mikilvægt að draga fram reynslu þjóðgarðsins af fyrri uppbyggingarverkefnum, svo sem á Skriðuklaustri, í Ásbyrgi og á Höfn í Hornafirði.

Til að fá betri yfirsýn yfir þetta verkefni til að treysta ákvörðunartöku um áframhaldið skipaði ég í byrjun september starfshóp okkur í ráðuneytinu til ráðgjafar um þetta mikilvæga verkefni. Í erindisbréfi hópsins segir eftirfarandi:

Skaftárhreppur er annað landstærsta sveitarfélag landsins en fjárhagsleg staða þess er veik. Leita þarf leiða til að styrkja og jafnframt skapa nýja atvinnu í sveitarfélaginu, en miklir möguleikar eru í ferðaþjónustu og landbúnaði sem eru meginatvinnugreinar sveitarfélagsins.

Umfang Vatnajökulsþjóðgarðs hefur vaxið ört með fjölgun ferðamanna á svæðinu sem styrkir jafnframt aðra ferðaþjónustuaðila. Mikilvægt er að uppbygging þjóðgarðsins haldist í hendur við hið aukna umfang og sé unnin í samvinnu við sveitarstjórn og einkaaðila í héraði.

Í ljósi þess hefur umhverfis- og auðlindaráðherra ákveðið að skipa starfshóp til að koma með tillögur að uppbyggingu til að efla atvinnusköpun í Skaftárhreppi til lengri tíma. Tillögurnar þurfa að falla að starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun og miðast við að fjölga heilsársstörfum.

Starfshópur um verkefnið skal skila skýrslu með niðurstöðum og tillögum eigi síðar en 14. nóvember 2014.

Í starfshópnum sitja Silja Dögg Gunnarsdóttir alþingismaður, sem er formaður, Vilhjálmur Árnason alþingismaður, Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps, og Hjalti Þór Vignisson, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Bind ég vonir við að tillögur starfshópsins skapi betri forsendur til að ræða betur næstu skref við uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri í þágu Vatnajökulsþjóðgarðs sem jafnframt leiði til eflingar samfélagsins alls í Skaftárhreppi. Hópurinn á að skila af sér innan skamms tíma og því ekki langt að bíða að hægt verði að taka tillögur hans til umfjöllunar.

Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að fyrir þetta svæði er það mjög mikilvægt.