144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

vegalög.

157. mál
[15:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um sameiningu sveitarfélaga þá var það einmitt markmið, þess vegna voru sveitarfélögin, Samband íslenskra sveitarfélaga, fengin inn í vinnuna. Þetta á alls ekki að valda því að það verði þungbærara, flóknara eða erfiðara fyrir sveitarfélögin. Alls ekki. Þess vegna er gefinn ákveðinn aðlögunartími að málinu auk þess sem kveðið er sérstaklega á, eins og ég nefndi í ræðu minni, um ákveðið samráð og viðræður við sveitarfélögin um þessa þætti. Flest af því sem þarna er lagt til er að mati sveitarfélaganna til mikilla bóta. Það er eitthvað sem ég geri ráð fyrir að hæstv. nefnd muni yfirfæra í sinni vinnu og ræða við sveitarfélögin um, en ekki er talið að það sem hv. þingmaður nefndi verði íþyngjandi.

Spurt var um nefndina sem fór yfir endurskoðun vegalaga. Hv. þingmaður spyr: Hvað var tekið inn í þessa lagasetningu og hvað var látið standa út af? Í þessari frumvarpsgerð var reynt að taka allt sem laut að tillögum nefndarinnar um breytingu á lögum inn í þetta. Það á að vera allt þarna inni sem laut að því að breyta lögum og það sem var talið sérstaklega mikilvægt til að tryggja að það mundi gerast hratt og örugglega. Ég skal hins vegar óska eftir því, fyrir hv. þingmann, að honum verði gerð aðgengileg niðurstaða þessarar nefndar og þessi vinna, þá er hægt að fara yfir það. En það var tekið inn í þetta verkefni þar sem þurfti að fara í breytingar á lögum.