144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Enn dynja fréttir á þjóðinni um markaðsmisnotkun. Fólki er brugðið og spyr hvort það sé misnotað. Ég vona svo sannarlega að þessar fréttir séu ekki á rökum reistar, en því miður berast okkur nú á tveggja vikna fresti mjög alvarleg tíðindi um þetta.

Ákæra Samkeppniseftirlitsins á hendur Eimskipi og Samskipum er stóralvarlegt mál, mun stærra en ákæran á hendur Mjólkursamsölunni sem kom fram fyrir hálfum mánuði. Misnotkun á markaðsráðandi stöðu er, eins og ég hef sagt áður, glæpur gegn neytendum, lækkar kaupmátt, ráðstöfunartekjur, er í raun þjófnaður. Ég gagnrýni Samkeppniseftirlitið líka harðlega fyrir slæleg vinnubrögð. Mál liggja allt að sjö árum áður en þau eru kláruð í þeirri eftirlitsstofnun. Við þurfum eftirlit sem virkar og er skilvirkt.

Eftirlitsiðnaðurinn er sjálfur eins og sofandi álfur eða fíll sem kemst ekki úr sporunum. Við þurfum alvöruvakt í Samkeppniseftirlitinu eins og alls staðar í eftirlitskerfinu. Og við þurfum traust í þetta samfélag. Það vantar traust, við þurfum að geta treyst hvert öðru í því sem við erum að gera. Fólkið í samfélaginu þarf að geta treyst fyrirtækjunum, að það sé að borga rétt verð fyrir vöruna. Ég spyr: Er engum treystandi?