144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nýlega falið sýslumanni í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri athöfn Vodafone og Hringdu að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að deildu.net og The Pirate Bay, en þetta eru vefsíður sem gera notendum kleift að deila höfundaréttarvörðu efni.

Ég hef áhyggjur af þessari þróun. Það eru góðar fréttir en þó eru það slæmar fréttir. Þessi aðgerð ein og sér mun ekki duga til að skemma neitt á internetinu. Vondu fréttirnar eru þær að þetta mun ekki duga til að stöðva höfundaréttarbrot heldur, sem þýðir að þegar fólk vaknar upp við þá staðreynd mun það vilja ganga lengra. Það mun ekki virka heldur.

Það er ekki hægt að framfylgja hefðbundnum hugmyndum um höfundarétt á internetinu án gerræðis og við erum ekki komin þangað, en það er það sem þarf. Þess vegna kalla ég eftir því að höfundaréttur verði endurhugsaður með hliðsjón af því að hann geti boðið upp á viðskiptamódel sem virkar meðfram frjálsu og opnu interneti. Það er ekki hægt að gera hvort tveggja Það er ekki ég sem ákvað að það yrði þannig, það er bara eðli tækninnar.

Hvaða aðferðir sem Hringdu og Vodafone munu þurfa að taka upp til að hindra aðgang fólks að þessum vefsíðum þá verður auðvelt að komast fram hjá því, það verður mjög auðvelt. Í sjálfu sér þarf mjög litla tækniþekkingu til að komast fram hjá því. Ég hef sagt það í fjölmiðlum og ég segi það aftur hér að ég mun deila tækniþekkingu minni, hún er mjög einföld. Hver sem er sem kann eitthvað smávegis á net getur léttilega komist fram hjá svona. Það verður alltaf þannig þar til að við göngum alla leið og tökum yfir mannleg samskipti í nútímasamfélagi eða gerum þessa grundvallartækni tortryggilega. Hvorugt kemur til greina að mínu mati. Við verðum að endurhugsa höfundarétt með hliðsjón af frjálsu og opnu interneti, með hliðsjón af því að veita viðskiptamódel sem virka fyrir listamenn og framleiðendur afþreyingarefnis — (Forseti hringir.) eða losa okkur við internetið.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.