144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Rammaáætlun snýst um það að við ræðum hugsanlega virkjunarkosti hér á landi í því samhengi að við röðum þeim upp og metum verndargildi og nýtingargildi og horfum á það í heildstæðu samhengi út frá forsendum sjálfbærrar þróunar þar sem við metum umhverfisþætti, efnahagsþætti og samfélagslega þætti við hvern og einn kost og horfum á það í samhengi.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur haft rammaáætlun til meðferðar hingað til og hefur þótt til þess best bær út frá málaflokkum þingsins þar sem horft er út frá rammaáætlun og sjálfbærri þróun sem vissulega heyrir undir umhverfisnefnd Alþingis.

Nú hefur hæstv. ráðherra hins vegar lagt til að málið fari til atvinnuveganefndar af því að þetta snúist eingöngu um nýtingu. Því hefur ekki verið svarað hvað gerist þegar virkjunarkostir rammaáætlunar verða færðir úr biðflokki yfir í vernd, hvort það eigi virkilega að fara að skipta þessu verkfæri okkar til að reyna að skapa sátt í náttúruverndarmálum á Íslandi upp milli nefnda eða hvort hér er hreinlega á ferðinni pólitískur (Forseti hringir.) leikur og tilraun til (Forseti hringir.) þess að auka enn nýtingarþungann (Forseti hringir.) í rammaáætlun. Þess vegna (Forseti hringir.) leggjum við til að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það á heima og þar (Forseti hringir.) sem það hefur verið undanfarin ár.