144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann nú ekki alveg að svara því hvað varðar hlutfallið til menntamála miðað við þjóðarframleiðslu, vil þó benda hv. þingmanni á að laun framhaldsskólakennara voru hækkuð allverulega í síðustu kjarasamningum og þess sér síðan stað í framlögum til framhaldsskólans. Við vorum einnig að ákveða að leggja töluvert aukna fjármuni fram til vísinda- og rannsóknastarfs o.s.frv., ég hef svo sem ekki tölur fyrir framan mig en það er rétt að horfa til þessara þátta.

Hvað varðar rafræna námsefnið þá er vandinn þessi: Þegar rafræna námsefnið er búið til og aðgangur veittur að því hefur það farið í það horf að því hefur verið dreift þannig að ekki hefur komið gjald fyrir. Ekki hefur verið hvati til að búa slíkt námsefni til. Hér er verið að skoða aðra leið, og sjá hvernig okkur tekst til með það. Þetta er tilraunaverkefni, það er veitt til takmarkaðs tíma eftir fögum og það eru heilmiklar takmarkanir á þessu. Ætlunin er að skoða hvort við getum ekki þróað kerfið, og til þess þarf lagastoð, til að lækka námskostnaðinn, til að auka útgáfu á rafrænu námsefni. Vandinn er sá sem ég var að lýsa, þ.e. um leið og búið er að opna fyrir námsefnið þá dreifist það út, menn hafi ekki komist fram hjá þeim þættinum. Þarna er verið að leita leiðar, til dæmis í samráði við Félag íslenskra bókaútgefenda og aðra, til að sjá hvort við getum ekki sett upp stoð í lögum þannig að við getum þróað þetta betur. Ég held að það sé eftir miklu að slægjast.

Síðan er það önnur umræða hvort við förum þá leið að segja að öll námsgögn á framhaldsskólastiginu séu ókeypis. Það er þá sérstök ákvörðun. Eins og nú stendur tel ég skynsamlegt að málið gangi fram og þessi heimild verði veitt. Enn og aftur er hún sett upp með takmörkunum þannig að þetta er takmarkað í tíma og líka hversu mikið hægt er að beita þessu. Þetta er tilraunaverkefni. Ég held að það sé áhugavert fyrir okkur að sjá hvert það leiðir.