144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

framhaldsskólar.

214. mál
[18:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók það sérstaklega fram að ég væri ekki að bera saman einstaklinga eða þeirra andlegu burði, alls ekki. Ég var að segja að forskot okkar sem komu til náms, framhaldsnáms eða háskólanáms, aðeins seinna en hinir ungu Bretar, fólst í aldrinum einvörðungu. Með aldrinum urðum við ekki endilega fróðari eða betri; við vorum þroskaðri einstaklingar eins og gerist með aldrinum, hvort sem þú ert íslenskur eða erlendur. Ég er bara að vekja athygli á því að þetta er ein vídd í þessari umræðu sem er vert að horfa til. En ég lagði áherslu á og legg jafnan áherslu á að nám á að vera dýnamískt allt lífið.

Sem betur fer hefur okkur Íslendingum tekist að verulegu leyti að efla símenntun. Það er rétt sem hæstv. ráðherra nefnir að úrræðin eru allt önnur, miklu fjölbreyttari og betri en þau voru áður. Hann nefndi tölfræði um þróun fjöldans í öldungadeildinni máli sínu til staðfestingar. Ég efast ekkert um þetta.

Hins vegar vek ég athygli á því að öldungadeild með tugi nemenda getur skipt þessa tugi einstaklinga mjög miklu máli. Það er nokkuð sem ég mundi vilja skoða rækilega, að minnsta kosti áður en ég tek afstöðu til málsins.