144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

framkvæmd skuldaleiðréttingar.

[10:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra og túlka hana þannig að gert verði opinbert hverjar forsendur greiðslnanna eru vegna þess að milljón króna greiðsla til eins aðila getur verið annars virði en milljón króna greiðsla til annars. Það getur annars vegar verið um að ræða banka með óvissa kröfu aftarlega á veðrétti sem er dauðfeginn að fá milljón meðan á hinn kantinn kann að vera lífeyrissjóður með öruggt veð fyrir sinni kröfu og vill helst ekkert fá þessa milljón. Það þarf þá væntanlega að borga lífeyrissjóðnum álag fyrir að þiggja milljónina en það getur verið eðlilegt að fá afslátt hjá bankanum fyrir milljónina sem hann fær. Þetta er flækjustigið sem hæstv. fjármálaráðherra stendur frammi fyrir. Við vitum auðvitað að hann er hæfileikamaður, hann getur töfrað fram máltíð eftir máltíð á 248 kr. máltíðina en þarna reynir virkilega á. Mun verða hægt að útfæra þetta þannig að ekki reyni á ríkisstyrkjareglurnar? Lykilatriðið í því er að þessar forsendur verða að vera opinberar áður en (Forseti hringir.) peningarnir eru greiddir út til almennings. Það er grundvallarkrafan.