144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

útkoma landsbyggðarinnar í fjárlagafrumvarpinu.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, tölurnar tala sínu máli. Tölurnar sýna að þessi ríkisstjórn er að gera meira til að byggja upp á landsbyggðinni, gera meira í heilbrigðismálum, gera meira í félagsmálum, gera meira í flestöllum þeim málaflokkum sem skipta okkur mestu máli en var á síðasta kjörtímabili. Hún er að gera það á sama tíma og fjárlög eru sett í plús en ekki rekin í tugmilljarðamínus eins og á síðasta kjörtímabili.

Hv. þingmaður ætti kannski að leyfa sér að fagna því annað slagið þegar tekst að ná fram jákvæðri þróun. Þó að ekki sé búið að ná öllum þeim markmiðum sem þessi ríkisstjórn stefnir að hljótum við að sjálfsögðu að líta til þess að staðan sem ríkisstjórnin tók við var þess eðlis að menn þurftu að byrja á því að ná tökum á ríkisfjármálum, hætta að reka ríkið með halla eins og gert var allt síðasta kjörtímabil, snúa þróuninni til betri vegar til að geta þá sótt fram á næstu árum.