144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að eiga orðastað við hv. þingmann Framsóknarflokksins, Líneik Önnu Sævarsdóttur, sem er annar varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, af því að mig langar til þess að vita um afstöðu Framsóknarflokksins vegna framlagningar fjárlagafrumvarpsins er lýtur að menntamálum. Þar sem við komum nú báðar úr skólakerfinu og höfum hlustað á sveitarstjórnarmenn undanfarið gerum við okkur mjög vel grein fyrir því hvernig staðan er og hvað fram undan er. Það eru ekki margar vikur þangað til við afgreiðslum fjárlög. Nú er lag að gera á þeim breytingu, en til þess að breyting nái fram að ganga er alveg ljóst að a.m.k. annar stjórnarflokkurinn þarf að eiga þar aðild. Mér hefur ekki fundist bera árangur að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og þess vegna ákvað ég að beina spurningu minni til hv. þingmanns og vita um afstöðu hennar og Framsóknarflokksins í þessu máli.

Hyggst hv. þingmaður og flokkur hennar beita sér fyrir breytingu á fjárlögunum sem hér hafa verið lögð fram þannig að við þurfum ekki að segja upp fjölda fólks í skólum — þetta eru líka opinber störf á landsbyggðinni — og þurfum ekki að loka á nemendur sem eru eldri og kippa þá um leið stoðunum undan minni framhaldsskólum, eins og við vitum báðar að liggur fyrir miðað við frumvarpið? Mér finnst mikilvægt að Framsóknarflokkurinn opinberi afstöðu sína til þessa máls því að komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna að þeir eru ekki alveg fullkomlega sáttir. Því spyr ég, af því að Framsóknarflokkurinn lýsti jú yfir að hann gerði fyrirvara við fjárlagafrumvarpið: Beinist sá fyrirvari m.a. að þessu og hyggst hv. þingmaður og (Forseti hringir.) flokkur hennar beita sér fyrir því að gerð verði breyting þar á?