144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

úrskurðarnefnd velferðarmála.

207. mál
[17:01]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála. Á málefnasviði velferðarráðuneytisins starfa eftirtaldar níu úrskurðar- og kærunefndir:

Kærunefnd barnaverndarmála, kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, kærunefnd húsamála, kærunefnd jafnréttismála, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála og úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Kærum til þessara nefnda hefur fjölgað mikið á síðustu árum og voru þær rúmlega 900 á árinu 2013. Allar nefndirnar eru sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem falið hefur verið að endurskoða ákvarðanir stjórnvalda í málum einstaklinga eða skera úr ágreiningi milli aðila. Eru úrskurðir nefndanna endanlegar ákvarðanir innan stjórnsýslunnar.

Í hverri úrskurðar- eða kærunefnd sitja þrír nefndarmenn sem sinna nefndarstörfunum sem aukastarfi. Nefndirnar þurfa því mikinn fjölda starfsmanna, bæði lögfræðinga og aðstoðarfólk, til að anna þessum mikla kærufjölda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur sérstaka skrifstofu utan ráðuneytisins en starfsmenn ráðuneytisins sinna störfum fyrir aðrar nefndir. Ekki hefur verið unnt að fjölga starfsmönnum nefndanna í samræmi við fjölgun mála þar sem ekki hafa fengist viðbótarfjárveitingar. Þá eiga þær nefndir í erfiðleikum með að anna málafjöldanum þar sem hann er mestur. Það, ásamt því að nefndirnar hafi ekki haft nægilega marga starfsmenn, hefur leitt til þess að afgreiðslutími kærumála hefur lengst smám saman hjá þeim nefndum þar sem málafjöldinn er mestur og hefur umboðsmaður Alþingis margsinnis gert athugasemdir við það. Úrskurðir varða oft mikilsverða hagsmuni kærenda, í sumum tilvikum lífsafkomu þeirra, og er því brýnt að úr verði bætt.

Í gildandi ákvæðum 19 sérlaga á sviði velferðarráðuneytisins er kveðið á um rétt almennings til að skjóta stjórnsýsluákvörðunum og í nokkrum tilvikum ágreiningi milli einstaklinga til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar eða kærunefndar og fá niðurstöðu innan tiltekins frests. Er þar yfirleitt miðað við þrjá mánuði. Eins og rakið hefur verið hér á undan hefur ekki reynst unnt að uppfylla ákvæði fyrrgreindra laga um afgreiðslufrest, annars vegar vegna þess að ekki hefur verið veitt fjármagn til nauðsynlegrar og sívaxandi starfsemi nefndanna og hins vegar vegna þess að núverandi fyrirkomulag, þar sem gert er ráð fyrir að seta í nefndunum sé aukastarf, er löngu úrelt og óframkvæmanleg hvað varðar þær nefndir þar sem málafjöldi er mestur.

Í frumvarpinu sem ég mæli fyrir er lagt til að sjö úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði ráðuneytisins verði sameinaðar í eina nefnd, úrskurðarnefnd velferðarmála. Ekki er gert ráð fyrir að kærunefnd jafnréttismála verði felld undir úrskurðarnefnd velferðarmála, a.m.k. ekki að svo stöddu. Ástæða þess er að á þessu þingi hyggst ég leggja fram tvö frumvörp þar sem gert er ráð fyrir auknu og breyttu hlutverki kærunefndar jafnréttismála. Þá er ekki gert ráð fyrir að starfsemi úrskurðarnefndar um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar verði felld undir úrskurðarnefnd velferðarmála, enda er um að ræða afar sérhæfðar ákvarðanir á mjög viðkvæmu sviði.

Á þingmálaskránni hjá mér er líka frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég held að því hafi átt að dreifa nú í dag. Þar er lagt til að ákvæðum laga um úrskurðarnefnd almannatrygginga verði breytt til samræmis við frumvarp þetta.

Í frumvarpinu er lagt til að í úrskurðarnefnd velferðarmála verði níu nefndarmenn. Formaður nefndarinnar og tveir aðrir nefndarmenn verði í fullu starfi, en sex nefndarmenn gegni nefndarstörfum sem aukastarfi. Nefndin verði sjálfstæð stofnun utan ráðuneytisins undir stjórn formanns nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að þeim starfsmönnum sem innt hafa af hendi störf fyrir úrskurðar- og kærunefndir að aðalstarfi verði boðið starf hjá nefndinni. Þessar skipulagsbreytingar munu jafna álagið á nefndarmenn og starfsmenn vegna breytilegs fjölda kærumála á mismunandi sviðum og fela þannig í sér tækifæri til aukinnar hagræðingar. Þá ættu samræmdar málsmeðferðarreglur að tryggja betur samræmda og vandaða málsmeðferð.

Loks verður sjálfstæði úrskurðarnefndanna betur tryggt með því að starfsmenn ráðuneytisins komi ekki að undirbúningi úrskurða.

Lagt er til að ákvæði sérlaga um skipan úrskurðar- og kærunefnda og almenn ákvæði um málsmeðferð verði felld brott, en ekki eru gerðar tillögur um breytingar á kæruheimildum laganna.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það því ekki hafa áhrif á rétt aðila samkvæmt gildandi lögum til að kæra stjórnvaldsákvarðanir til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar eða leita álits eða úrskurðar um ágreiningsmál.

Tilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru m.a. að auka hagkvæmni og skilvirkni nefndanna og eru því samræmi við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar frá 11. nóvember 2013 um aukna framleiðni og skilvirkni í ríkisrekstri, en í 22. lið tillagnanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Haft verði frumkvæði að því að sameina úrskurðarnefndir og auka hagkvæmni í störfum þeirra.“

Verði frumvarp þetta að lögum mun það tryggja betur sjálfstæða, óháða og vandaða endurskoðun stjórnvaldsákvarðana innan ásættanlegs tíma. Þá mun sameining sjö úrskurðar- og kærunefnda fela í sér tækifæri til hagræðingar við endurskoðun stjórnvaldsákvarðana.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir auknum fjárheimildum til úrskurðarnefndanna til þess að mæta þeim málafjölda sem verið hefur til staðar. Það er raunar óháð þessu frumvarpi. Við teljum hins vegar að með skipulagsbreytingunum getum við aukið skilvirknina enn frekar og tryggt vandaðri vinnu varðandi þau verkefni sem úrskurðarnefnd velferðarmála mun hafa. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er mjög mikilvægt fyrir rétt borgaranna að þær kæruheimildir og kæruleiðir sem til staðar eru í stjórnkerfinu séu eins skilvirkar og hægt er og fólk geti þar af leiðandi fengið rétt sinn staðfestan.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið fari til hæstv. velferðarnefndar.