144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:46]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér heyrist við hv. þm. Brynjar Níelsson eiga langt í land varðandi það að vera sammála á þessu sviði og það er gott að geta átt orðastað við hann áfram. En að ákveða það að summa einhverrar neyslu verði hvort eð er alltaf eins og þá eigum við bara ekkert að gera — ég get ekki sætt mig við það. Og að vera að selja áfengi og brennivín á öðru hverju horni, ég sé ekki að það bæti neitt hjá okkur.

Ég er alveg handviss um að ég og hv. þm. Brynjar Níelsson mundum oftar fá okkur í glas ef það væri hér á hverju horni. (BN: Og værum glaðari.) Kannski glaðari, ég er þó ekki alveg viss um það til lengri tíma litið.

En það er svo margt sem við megum ekki gefast upp gagnvart fyrst við ræðum um forræðishyggju. Í dag er bannað að keyra án bílbelta. Okkur finnst það alveg sjálfsagt að allir setji á sig bílbelti. Það voru settar reglur um það og öllum finnst það sjálfsagt. Nú er bannað að reykja á veitinga- og skemmtistöðum og í flugvélum. Okkur finnst það allt í lagi núna, við höfum sæst á það og það er viðurkennt. Það er líka bannað að selja mat með transfitusýrum, það er alveg glænýtt mál. Flestum finnst það sjálfsagt. Þetta eru allt góð lýðheilsumál og ef við skoðum hlutina frá þeirri hlið vil ég að við höldum okkur við það sem við þó þekkjum og er gott, en auðvitað getum við bætt þjónustuna á mörgum sviðum og líka í þessu. En að gefa allt frjálst og opna á þessu sviði tel ég ekki að sé til farsældar fyrir þjóðina.