144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður benti á þá vísaði ég til þess að ég teldi að við ættum að hafa lífeyrissjóðina í forgangi þegar við hugum að því að hleypa aðilum út úr þeim gjaldeyrishöftum sem nú eru. Við eigum að reyna að skapa þeim möguleika á því að fjárfesta erlendis eins fljótt og við mögulega getum vegna þess að við þurfum að hafa eggin okkar í fleiri en einni körfu.

Ég held að við að þroska þetta mál kynni að vera ástæða til að horfa til þess hvort nota mætti þessi hálfskráðu bréf, ekki til að draga úr skráðum fjárfestingum heldur hugsanlega til þess að íhuga hvort minnka ætti á móti heimildir til að fjárfesta í óskráðum félögum þannig að þingið og nefndin þrýstu á lífeyrissjóðina að flytja sig úr því óeðlilega ástandi sem ég held að 20% staða í óskráðum félögum sé fyrir þá og flytja sig til að byrja með fremur inn í hálfskráða gerninga eins og er að finna á þessum markaði. Ég held að það væri illskásta leiðin í málinu.