144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst hvað varðar spurningu hv. þingmanns um samráð við Félag fasteignasala. Já, það hefur verið haft samráð. Þetta mál er ekki að koma hingað inn í fyrsta sinn. Það hefur ítrekað verið haft samráð við Félag fasteignasala. Ég dreg enga dul á að það eru nokkur atriði í þessu frumvarpi sem ekki er einhugur um innan Félags fasteignasala. Það er ekki bara skoðanamunur á milli okkar og félagsins heldur líka innan fasteignasalagreinarinnar um ákveðin atriði, þar á meðal um skylduaðild að félaginu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það séu veigameiri rök fyrir því að afnema þá skylduaðild en að styrkja félagið með þeim hætti sem Félag fasteignasala leggur til. Það mun koma fram við vinnslu málsins í nefndinni, er ég fullviss um, að Félag fasteignasala er ekki algjörlega með því.

Við höfum svarað öllum erindum frá Félagi fasteignasala. Það sendi bréf fyrr í haust til mín sem hefur verið svarað. Aðallega fjögur atriði standa upp úr. Sumt erum við ósammála um, annað getum við nálgast.

Varðandi b-lið 3. gr., um skilyrði til löggildingar, þá er það alveg skýrt í greininni að almenna reglan er sú að fasteignasali sé lögráða og hafi aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta. Hins vegar er opnað fyrir það að menn geti leitað til eftirlitsnefndarinnar og séu þar málefnalegar ástæður til getur nefndin eftir atvikum veitt undanþágu frá þessu. Ég er þess fullviss vegna mikilvægis þess að hafa þetta umhverfi skýrt og tryggja neytendaverndina að það verði ekki auðsótt mál að fá þessari meginreglu hnekkt.