144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

heilbrigðismál.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Fjármagn til þessa verkefnis kemur alltaf á endanum úr ríkissjóði. Spurningin er bara með hvaða hætti það gerist. Menn hafa velt upp ýmsum hugmyndum í því sambandi eins og til að mynda, svo ég nefni eina, að láta lífeyrissjóðina koma að því að fjármagna bygginguna. Það mundi hins vegar ekki breyta því að ríkissjóður þyrfti á endanum að standa straum af kostnaðinum. Ríkissjóður mundi á endanum þurfa að endurgreiða lífeyrissjóðunum og borga þeim vexti.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta spurning um ríkisfjármálin. Þess vegna er svo mikilvægt að það skuli vera að nást árangur eftir erfiði undanfarinna ára og sérstaklega að sjálfsögðu með hallalausum fjárlögum annað árið í röð sem gerir okkur kleift að fjármagna nauðsynlegar úrbætur í heilbrigðiskerfinu, m.a. og ekki hvað síst varðandi húsakost Landspítalans.