144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

yfirstjórn vísinda og háskóla.

254. mál
[15:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Hún er sannarlega merkileg þessi aðgerðaáætlun sem kom út frá Vísinda- og tækniráði í júní sl. Ég hef sannast að segja undrað mig svolítið á því að ríkisstjórnin hafi ekki veifað henni meira. Ég er svolítið hrædd um að það sé kannski út af því að undirstöðurnar séu enn þá svolítið lausar í sér og menn viti ekki alveg hvernig þeir ætla að framkvæma þetta allt saman.

Það kemur til dæmis fram að á árinu 2016 eigi Háskóli Íslands að vera á pari við meðaltal í OECD-löndunum. Ég held að það þýði að þá þurfi 6 milljarða til að auka háskólanám. Það þarf að sameina háskólana svo að þeir skili sér betur.

Ég spyr: Er unnið að þessu? Ég held að þetta séu mjög fínar tillögur og þær koma reyndar allar fram í þessari skýrslu sem hæstv. ráðherra segir að birst hafi í september. Hún var nefnilega birt þeim sem með áttu að höndla, ef svo má að orði komast, í apríl, og sem betur fer var unnið vel upp úr henni og ber að fagna því. En það er náttúrlega höfuðatriði (Forseti hringir.) í því að farið verði eftir henni.