144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er mikilvægt að læra af sögunni. Í október 2008 voru sett neyðarlög hér á Alþingi og það hefur oft verið rætt af ýmsu tilefni eftir það að þar hafi ekki verið hugað að áhrifunum á verðtryggð lán heimilanna. Það er meðal annars þess vegna sem ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra hafi sérstakan fókus á því máli. Nú er verið að færa niður skuldir heimilanna í gríðarlegri millifærslu sem hefur fordæmisgildi. Við vitum hvaða áhrif það hafði á heimilin að takast á við þessar höfuðstólshækkanir. Það verður að vera tryggt að til staðar séu áætlanir um mótvægisaðgerðir svo við lendum ekki í svipuðu aftur. Það yrði kannski ekki af sömu stærðargráðu, en það yrði þungt högg fyrir mörg heimili, ekki síst á leigumarkaði sem fá ekki neinar bætur fyrir sinn skaða í aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Mér heyrist ráðherra ekki vera að undirbúa slíkar mótvægisaðgerðir. Ég tel að það þurfi mun meiri strúktúrbreytingar á íslensku efnahagslífi en lög um opinber fjármál rúma. Lög um opinber fjármál eru góðra gjalda verð, en þau ein og sér tryggja ekki íslenskt efnahagslíf gegn gríðarlegum sveiflum í gengi krónunnar ef við ætlum að búa í opnu markaðshagkerfi.

Ég kalla eftir skýrari svörum frá ráðherra, öðrum en (Forseti hringir.) strúktúrbreytingum, óverulegum þó, (Forseti hringir.) og beinum mótvægisaðgerðum.