144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög ánægjulegt að geta komið hingað og þakkað ráðherranum fyrir skýr og góð svör. Hér er það sem sagt fest í þingtíðindi að umsjónarráðherra hefur lýst því yfir á Alþingi að Náttúrufræðistofnun verði falið að gera varðveislusamning við Hvalasafnið á Húsavík um að setja upp beinagrind steypireyðarinnar.

Þetta er mjög mikilvægt og gott svar þó svo ég hafi líka heyrt í fréttum af þessum fundi kjördæmaráðs framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi þar sem tilkynnt var að beinagrindin færi til Húsavíkur. Það hefur kannski gerst í framhaldi af þessari umræðu, bæði í samræðum sveitarstjórnarmanna við okkur þingmenn í kjördæmavikunni svo og í þeirri fyrirspurn sem hér er sett fram, að þessi lausn fæst sem er góð og farsæl.

Eins og hæstv. ráðherra sagði þá verður þessi samningur gerður þar til nýtt Náttúruminjasafn Íslands verður byggt. Ég get tekið undir það og vona þá jafnframt líka að kannski komi annar hvalreki þannig að ekki þurfi að búa til afsteypu af því heldur verðum við þá bara með tvær alvörubeinagrindur.

Þetta er mjög mikilvægt og það hefur komið fram í fréttum að meðal annars bandarískir aðilar, mannúðarsamtök, hafa veitt Hvalasafninu styrki til að byggja við safnið, þess þurfti til að koma hinni stóru grind fyrir.

Ég gæti beðið hæstv. ráðherra um að svara því í seinna svari — alveg eins og hugsunin var við uppsetningu á grindinni í Perlunni, ef það hefði orðið hefði mikill kostnaður fylgt því — hvort Hvalasafnið á Húsavík fái þá ekki einhverja peninga með til að setja grindina upp svo að sómi sé að fyrir okkur Íslendinga.

Ég er sannfærður um að hér er stórt og mikilvægt skref stigið í safnamálum á Íslandi.