144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[15:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir að útskýra frekar af hverju orðið flutningsfyrirtækið er með ákveðnum greini í frumvarpinu. Engu að síður gætu raforkulög breyst, engu að síður gæti ýmislegt annað breyst. En ég þakka ráðherranum fyrir upplýsingarnar.

Ég þekki vegalögin og veit hvað þar stendur, en ég er jafn ósátt við það þegar löggjafinn ákveður þannig að einhverjum öðrum beri að gera eitthvað af því að framkvæmdarvaldið eða einstakar stofnanir óski eftir þessu eða hinu. En ég hef í sjálfu sér ekkert við svör ráðherrans að athuga og þakka upplýsingarnar.

Mér var kunnugt um það sem hæstv. iðnaðarráðherra nefndi, að c-liður hefði fallið brott vegna óska sveitarfélagsins. Mér var líka ljós samvinnan við Samband íslenskra sveitarfélaga, en ég segi engu að síður að góð vísa er aldrei of oft kveðin. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaga og í mínum huga þarf að virða það til hins ýtrasta.