144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

raforkulög.

305. mál
[15:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér ákaflega mikilvægt mál sem er kerfisáætlun og breyting á raforkulögum. Ég vona sannarlega, eins og fram kom í máli ráðherra, að vinna við kerfisáætlun eigi eftir að skila okkur fram á veginn, m.a. við að tryggja afhendingaröryggi raforku á svæðum sem voru tiltekin, norðausturhornið sérstaklega og Vestfirðir, en líka til að koma í veg fyrir árstíðabundin vandræði við afhendingu á raforku, vandræði sem hafa komið upp jafnvel þótt til sé næg raforka í landinu.

Ég vil eins og fyrri ræðumenn koma inn á áhyggjur sveitarstjórnarmanna sem ég hef heyrt, m.a. töluvert í kjördæmaviku á norðausturhorninu, af skipulagsmálum. Ég vil leggja áherslu á að í nefndum verði farið vandlega yfir það og hvernig þetta snýr að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Það er kannski ástæða til að spyrja ráðherra hvernig aðkoma allra aðila er tryggð í upphafi, ég átta mig ekki á því.

Í 2. gr., sem verða 9. gr. a., eru tilteknir aðilar sem flutningsfyrirtækið skal hafa samráð við, og síðan segir, með leyfi forseta:

„Drög að kerfisáætlun skulu kynnt og send þessum aðilum til sérstakrar umfjöllunar og ber þeim að skila athugasemdum innan sex vikna frá kynningu.“

Hvernig er aðkoma þessara aðila tryggð á fyrri stigum?

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en legg áherslu á að mikilvægt er að finna aðferðir sem nýtast til að meta þörf fyrir raforku þar sem tekið er tillit til þarfa samfélaganna og umhverfisins á hverjum stað.