144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

31. mál
[16:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tek undir með hæstv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að um mikla réttarbót, ef svo má að orði komast, yrði að ræða fyrir eldra fólk. Ekki síst vekur það athygli mína, sem hún bendir á, að konur eru almennt og hafa verið, það sýnir sig enn í öllum úttektum sem gerðar eru, með lægri laun en karlar. Þess vegna sitja þær uppi með ógreidd lán þegar kemur yfir 67 ára aldurinn í meira mæli en karlar. Það finnst mér mjög athyglisverð staðreynd sem taka þarf tillit til.

Mig langar aðeins að koma inn á ábyrgðarmennina líka. Ég hef reyndar ekki skilið hvernig það megi vera að lán falli niður við andlát lántakanda en ef ábyrgðarmaður fellur frá þá erfist sú ábyrgð. Ég segi það nú bara, virðulegi forseti, að ég trúði því ekki þegar ég uppgötvaði það að það væri þannig. Það er mjög brýnt að leiðrétta það.

Ég tek undir það með hv. framsögumanni að það þarf að endurskoða öll lögin um lánasjóðinn. Mér finnst líka mjög gott, og það skiptir máli sem hún nefndi, að lántakendur þurfi að eiga aðild að stjórn sjóðsins því að hagsmunir þeirra eru ekki minni en þeirra sem fá lán hverju sinni og ekki síst þegar tekið er tillit til þess að það virðist vera nokkuð frjálst hvernig stjórnin getur breytt innheimtureglum sjóðsins. Það finnst mér skipta máli líka. Auðvitað kostar þetta peninga og nokkrar upplýsingar eru um það í greinargerðinni hversu mikið það kostar; svo virðist vera að strax þyrfti að afskrifa 576 milljónir, það eru náttúrlega heilmiklir peningar, en réttarbótin yrði gífurleg.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta og kom í ræðu frekar en andsvar vegna þess að greinargerð framsögumanns var mjög skilmerkileg. Ég vil bara taka undir mikilvægi þessa frumvarps og vona að það komist áfram í þingstörfunum í vetur.