144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

mál stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að þegar ég leitaði að einstaklingi til að gegna formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins vildi ég gjarnan finna til þess konu. Ég leitaðist jafnframt eftir því að finna einhvern sem hefði reynslu úr fjármálaheiminum til að víst væri að í stjórn Fjármálaeftirlitsins væri til staðar skilningur á þeim viðfangsefnum sem menn væru að fást við í fjármálaheiminum og það væri með tilliti til annarra þeirra sem þar sitja samansafn af góðri þekkingu á málefnum fjármálamarkaðarins.

Það hefur ekkert komið fram í opinberri umfjöllun um það að viðkomandi hafi gerst brotlegur. Það hefur ekkert komið fram um það að trúnaður hafi verið rofinn eða lög sveigð eða brotin. Hins vegar, ef eitthvað slíkt kæmi upp mundi ég bregðast við því með því að hreinsa borðið og óska eftir því að viðkomandi mundi víkja. Það er ekkert persónulegt í þessu máli. Það er ekkert annað en fagleg rök sem búa hér að baki. Ég mundi ekki bíða með það í einn dag að gera slíka breytingu (Forseti hringir.) ef þörf krefði. En það er bara einfaldlega ekkert slíkt fram komið.