144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:29]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu, sem er gríðarlega mikilvæg, og taka undir að við erum í grafalvarlegri stöðu. Ég tek undir að það er verkefni okkar allra að gera kjör lækna samkeppnisfær við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, um leið og við þurfum að bæta tækjakost og starfsaðstöðu með skipulegri áætlun um nýbyggingu á lóð Landspítalans við Hringbraut. En það sem vantar er að fylgja eftir þeim góðu áformum með skipulegum hætti og áætlunum þar sem fólk getur treyst á að í vændum séu einhverjar breytingar. Það hefur okkur ekki tekist.

Við gripum til mikils niðurskurðar. Við tókum að vísu við spítalanum á sínum tíma með 3 milljarða halla. Síðan er gripið til mikils niðurskurðar, en það var viðurkennt af þeim sem hér stendur og fleirum árið 2012 að of langt var þá gengið. Því miður hefur ekki tekist að snúa því við síðan. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag er að sannfæra það frábæra fólk sem hefur hér haldið úti einni bestu heilbrigðisþjónustu sem við sjáum í heiminum um að okkur sé alvara að snúa þessari þróun við svo að það missi ekki móðinn. Það er farið að missa móðinn. Það er líka farið að koma fram hjá sjúklingasamtökum eins og í gær þegar kallað er: Við náum ekki eyrum stjórnvalda, það er ekki brugðist við ástandinu.

Þetta er verkefni okkar hér í dag, allra sem eru í þessum sal sem og ríkisstjórnarinnar. Það er okkar að breyta stöðunni. Á sínum tíma notuðum við 9,5% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. Við erum dottin niður fyrir 9%. Bara það að fara í gömlu prósentuna gæfi 14 milljarða. Ef við tækjum ákvörðun um að setja þá upphæð inn með skipulegum hætti, fengjum með okkur fagfólkið til að skipuleggja hvernig ætti að búa um það með bættri aðstöðu og bættum launakjörum þá næðum við þessum árangri og hægt yrði að breyta stöðunni. En það þarf að fara að taka ákvarðanir. Það þarf að fara að gefa skýr skilaboð, ekki að málið sé í skoðun, ekki að það sé ekki til fjármagn og að ekki sé vitað hvenær það komi o.s.frv. Þetta er spurning um forgangsröðun. Við þurfum að efla bjartsýnina og tiltrú á íslensk stjórnvöld og Alþingi, sannfæra fólk um að okkur sé alvara með að reka áfram heilbrigðisþjónustu í fremstu röð.