144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda sérstaklega fyrir þá brýningu sem kom fram síðast í ræðu hans, um áskoranir til samningsaðila að leysa og greiða úr þessari stöðu. Ég er sammála honum um að þjóðin kalli eftir þeirri niðurstöðu. Í orðum hans endurspeglast ágætlega að það þarf tvo til að semja. Við verðum líka að hafa í huga að kröfur sem starfsstéttum þykja á margan hátt eðlilegar og beinast að launagreiðanda, í þessu tilfelli ríkinu, þurfa líka að hafa samhljóm með öðrum stéttum sem gera kröfur á sama launagreiðanda. Það er hluti af þeim vanda sem við er að glíma og veldur því að samningsaðilarnir eru enn að reyna að nálgast einhverja niðurstöðu sem þeir telja að eigi líka samhljóm með öðrum kröfum í þjóðfélaginu. Þetta er hið vandasama einstigi sem ég veit að hv. málshefjandi þekkir vel úr fyrri störfum sínum að er ákveðin list að feta.

Ég vil aðeins benda á varðandi einkareksturinn í þessu sambandi að það stendur engin grundvallarbreyting til í mínum huga í þeim efnum. Ég bendi bara á að í samningsleysinu við sérgreinalæknana um 450 þús. komur hækkaði hlutdeild sjúklinga úr því að vera 30% upp í 42% af kostnaði. Það sagði enginn múkk. Þegar við lækkum hlutdeild þessa sama hóps, þessar 450 þús. komur, úr 42% kostnaðarhlutdeild í 30% þá segir sömuleiðis enginn múkk. Ég bið því alla að vanda umræðuna. Hún snýst um þrjá þætti í megindráttum: fjármögnun heilbrigðiskerfisins, launakjör læknastéttarinnar, betri aðbúnað og tæki.

Þegar spurt er um stefnu er ég og hef verið að vinna í tvö ár eftir fimm ára áætlun um tækjakaup spítalanna, sem (Forseti hringir.) búin var til af þeim sjálfum. Á næsta ári koma 1.450 milljónir inn fyrir tækjakaupum Landspítalans ef Alþingi samþykkir þá tillögu sem fyrir liggur í fjárlagafrumvarpinu. Ég veit að svo verður.