144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Oft er bæði ánægjulegt og áhugavert að taka þátt í umræðu hér á Alþingi þar sem skipst er á skoðunum um landsins gagn og nauðsynjar. Af mörgum skemmtilegum stundum hér á þingi með stjórnarandstöðunni þykir mér líklegt að þessi muni standa upp úr. Aldrei hefur verið jafn gaman að ræða um skuldamál heimilanna og einmitt nú þegar leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána hefur verið birt landsmönnum. Ég hlakka til fleiri slíkra stunda á næstu missirum þegar önnur stór mál sem varða heimilin í landinu miklu verða til lykta leidd.

Byrjum á byrjuninni, virðulegur forseti. Árið 2009: Á Íslandi voru einstakar aðstæður á þeim tíma til að takast á við bankahrunið og fjármálakreppuna. Hefðu þáverandi stjórnvöld borið gæfu til að nýta sér þær aðstæður hefði losnað um það kreppuástand sem ríkti hér allt of lengi miklu fyrr.

Í kreppum geta falist tækifæri og þá þarf að hugsa í lausnum. Lausnin í þessu tilviki lá í því að landið hafði að miklu leyti verið afskrifað efnahagslega. Það er kannski tækifæri til að nýta þá staðreynd til að leiðrétta stöðu landsins og heimilanna. Bent var á að íslenska ríkið ætti að kaupa kröfur á hina föllnu banka og færa ætti niður skuldir heimilanna í ljósi þess að verðmæti þeirra hefði þegar verið afskrifað að verulegu leyti. Hvorugt var gert. Um tíma leit út fyrir að tækifæri til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán hefði farið forgörðum. Með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur nú tekist að snúa við stöðu sem virtist um tíma töpuð og ná bestu mögulegu niðurstöðu. Verkefnið hefði að sönnu verið einfaldara árið 2009 en það er í dag og hefði jafnvel haft enn meiri áhrif, en við skulum láta það liggja milli hluta. Ný ríkisstjórn tók við vorið 2013.

Fyrsta fyrirsögnin í stefnuyfirlýsingunni segir allt sem segja þarf um áherslur ríkisstjórnarinnar, það er kaflinn um heimilin. Þar segir:

„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.

Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.“

Þetta var kaflinn úr stjórnarsáttmálanum um stöðu heimilanna og mikilvægi þess að ráðast í þær aðgerðir sem nú eru komnar í framkvæmd.

Það var í lok júní árið 2013, aðeins mánuði eftir að ríkisstjórnin tók við, að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu í tíu liðum um umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Í lok maí á þessu ári, tæpu ári eftir að Alþingi samþykkti tillöguna, sendi forsætisráðuneytið út fréttatilkynningu um að búið væri að samþykkja lög eða koma málum í farveg í tengslum við öll verkefni þingsályktunarinnar. Alþingi hefur sett sex lög í tengslum við umrædda þingsályktun:

1. Um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.

2. Um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

3. Um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

4. Um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna.

5. Um stimpilgjöld.

6. Um upplýsingar til Hagstofunnar frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila.

Afnám verðtryggingar og framtíðarskipan húsnæðismála eru tvö umfangsmikil verkefni sem tengjast sterkum böndum. Stefnumótun liggur fyrir og verður áfram unnið að því að koma þeirri stefnumótun í framkvæmd. Þannig hefur ríkisstjórnin samþykkt áætlun um vinnu við afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Þá hefur félags- og húsnæðismálaráðherra kynnt ítarlegar tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.

Afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum er mér afar hugleikið efni sem skiptir heimilin í landinu miklu. Samkvæmt samþykktri áætlun ríkisstjórnarinnar eru næstu skref í vinnu við afnám verðtryggingar eftirfarandi:

Í fyrsta lagi mun fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa umsjón með vinnu við að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að tíu ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Þetta mál verður flutt á vorþingi.

Í öðru lagi mun velferðarráðuneytið hafa umsjón, í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnarinnar um framtíðarskipan húsnæðismála, með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Í þriðja lagi hefur forsætisráðuneytið skipað starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu.

Í fjórða lagi hefur ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna skipað verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Stór verkefni eins og afnám verðtryggingar og framtíðarskipan húsnæðismála eru verkefni sem taka tíma og krefjast þolinmæði, enda verða aðstæður að vera hagfelldar svo að ekki verði lögð veruleg fjárhagsleg áhætta á heimilin. Flest bendir til að hagstæðar aðstæður séu að skapast til þessara verka þó að vissulega séu blikur á lofti, t.d. vegna óvissu um kjarasamninga.

En víkjum þá að leiðréttingunni. Leiðréttingin færir verðtryggð lán heimilanna í þá stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu heimilanna í uppnám á árunum 2008 og 2009, en þetta mikla verðbólguskot einskorðaðist við þau ár. Á þessum tíma var mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Gengi íslensku krónunnar hrapaði. Verðbólga fór úr böndunum, eignaverð hrundi og samdráttur varð í landsframleiðslu. Verðbólga hefur áður farið úr böndunum á Íslandi og gengið fallið, en það sem skilur forsendubrestinn frá öðrum verðbólgutímabilum eru þættir sem tengjast fylgifiskum fjármálakreppa, svo sem þróun launa, kaupmáttar og eignaverðs.

Leiðréttingin er að sönnu óhefðbundin aðgerð til að bæta hag heimila, en stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum og fordæmalausum aðgerðum í fjármálakreppunni til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. Gríðarleg inngrip Seðlabanka leiddu til mikilla vaxtalækkana, víða á Vesturlöndum hagnaðist yngra og skuldsettara fólk vegna lægri vaxta á húsnæðislánum en eldra fólk og fjármagnseigendur töpuðu vöxtum sem þeir ella hefðu fengið. Leiðréttingin er réttlætismál. Ólík lánsform með ófyrirsjáanlegri áhættu eiga ekki að ákvarða örlög heimila. Sá stóri hópur sem var með hefðbundin verðtryggð lán en gat ekki nýtt sér 110%-leiðina hefur legið óbættur hjá garði þar til nú.

Helstu stærðir í leiðréttingunni eru orðnar vel þekktar í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga. Meðaltal leiðréttinga á umsækjanda er 1.350 þús. kr. Samtals hafa þegar um 91 þús. manns fengið staðfestingu á því að þeir eigi rétt á leiðréttingu. Ég hvet þingmenn og aðra landsmenn til að skoða vel ítarleg kynningargögn um leiðréttinguna sem er að finna á heimasíðum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ég er sérstaklega ánægður með tekjudreifingu leiðréttingarinnar. Hún sýnir að leiðréttingin er fyrst og fremst aðgerð sem nýtist fólki með lágar tekjur og millitekjur. Einstaklingur með 330 þús. kr. í mánaðartekjur er tíðasta gildi í leiðréttingu, en meðalheildarlaun á íslenskum vinnumarkaði voru 526 þús. árið 2013.

Ég hef tekið eftir því að stjórnarandstaðan hefur sett fram í umræðunni síðustu daga fullyrðingar um að einstaklingar með laun um eða yfir meðaltekjum hljóti að teljast hátekjufólk. Það er vissulega athyglisvert sjónarmið að telja að allir sem eru með meira en meðaltekjur séu hátekjufólk. Hins vegar ber á það að líta að fólk með yfir 1 milljón á mánuði fær minna en 4% leiðréttingarinnar. Ég endurtek: Minna en 4%. Það er allsendis ólíkt því sem var í 110%-leiðinni.

Hæstv. forseti. Leiðréttingin tengist uppgjöri slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Verja skal hluta af fyrirsjáanlegu svigrúmi sem myndast við uppgjörið til að koma til móts við heimilin. Þar sem meira liggur á leiðréttingunni en uppgjöri slitabúa er bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs. Svigrúmið er hins vegar þegar byrjað að myndast fyrir milligöngu ríkisins, en slitabúin greiða nú tugi milljarða í skatta árlega. Ekki má gleyma því að þessi ríkisstjórn er að skapa þetta svigrúm með markvissum aðgerðum.

Leiðréttingin er einungis fyrsta stóra aðgerðin af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi, bæði heimila og fjármálamarkaðar. Losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning Íbúðalánasjóðs eru mikilvægar vörður á þeirri leið. Þannig munu öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, njóta góðs af breytingunum.

Heimilin í landinu eru hornsteinn samfélagsins. Með því að skila fjármagni til heimilanna sem urðu fyrir ófyrirséðu tjóni mun þessi umfangsmikla leiðrétting ekki aðeins bæta stöðu tugþúsunda heimila með beinum hætti heldur einnig samfélagsins alls.