144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessum skuldaaðgerðum eins og öðrum er margt gott að finna en því miður líka margt mjög ósanngjarnt og sannarlega er þetta ljósárum frá því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fólkinu í landinu. Rúmlega helmingur heimila í landinu fær ekki neitt og innan við helmingurinn fær að meðaltali rúmlega 8 þús. kr. lækkun á afborgun á mánuði. Hver maður sér að það er ekki leiðrétting á forsendubrestinum sem varð í hruninu. Það er ekki upprisa millistéttarinnar, það eru engir 300 milljarðar, það eru ekki 20%, það gaman er hvergi að finna.

Við skulum byrja á því sem gott er í aðgerðum. Við í Samfylkingunni sögðum í kosningabaráttunni að enn væri óbættur verðtryggði hópurinn sem keypti á árunum 2004–2009. Við vildum verja allt að 60 milljörðum kr. til að leiðrétta stöðu þess fólks.

Umtalsverður hluti niðurfærslunnar sem nú er ráðist í gerir einmitt það og ég fagna þeim hluta aðgerðarinnar. Við sáum hins vegar ekki forsendubrest hjá þeim sem keyptu eignir fyrir þann tíma því að þar hefur fasteignaverð almennt hækkað meira en lánin hafa hækkað og við töldum aldeilis fráleitt að fólk sem á miklar eignir fengi framlög úr ríkissjóði á þessum erfiðu tímum. Við gerðum breytingartillögu við frumvarp ríkisstjórnarinnar þar að lútandi sem komið hefði í veg fyrir að hjón með yfir 30 millj. kr. í hreinni eign hefðu fengið nokkra leiðréttingu. Þá fjármuni sem hefði mátt spara með því að takmarka aðgerðina með eðlilegum aðgerðum, þ.e. að þeir sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti og þeir sem eiga miklar hreinar eignir og þurfa ekki framlög úr ríkissjóði fengju ekkert. Þá hefðum við getað notað tugi milljarða í aðgerðir í húsnæðismálum fyrir leigjendur, fyrir Landspítalann og velferðarkerfið yfir höfuð. Það er einmitt það sem er ósanngjarnast í útfærslu ríkisstjórnarinnar á nauðsynlegum skuldaaðgerðum, að 30 þús. heimili á leigumarkaði sem sannarlega urðu fyrir forsendubresti þar sem húsaleigan hækkaði verulega með verðbólgunni sem fylgdi hér í hruninu fá ekki neitt og þó eru það þau heimili sem eiga erfiðast í landinu. En á sama tíma er pínlegt að hlusta á opinbera umræðu þar sem auðmenn taka við framlögum úr ríkissjóði og gefa peningana áfram og stjórnarliðar, sem felldu sjálfir þá tillögu að það væru eignamörk í þessari aðgerð, að sett væru takmörk fyrir því hversu háar tekjur fólk gæti haft, hversu miklar eignir það gæti átt til að fá þessi framlög, telja sér sæmandi að gagnrýna þessa auðmenn. Á erfiðum tímum í íslenskum þjóðarbúskap þegar ríkissjóður er gríðarlega skuldsettur og velferðarkerfið hefur átt við mikinn vanda að stríða er algerlega óábyrgt að gefa gríðarlegar fjárhæðir stórum hópum sem ekki þurfa á því að halda.

Ég vek athygli á því í þessu sambandi að samkvæmt glærusýningu ríkisstjórnarinnar sjálfrar fara 30% af aðgerðinni til hjóna sem eiga yfir 25 millj. kr. í hreinni eign í íbúðarhúsnæði sínu og til einstaklinga í sambærilegri stöðu.

En aðeins um vanefndir Framsóknarflokksins. Hvert var meginloforð flokksins í skuldamálum heimilanna? Það var það sem forsætisráðherra nefndi áðan, afnám verðtryggingarinnar. Hvar er það statt? Hvergi. Fjármálaráðherra lýsti því yfir á Stöð 2 í fyrrakvöld að hann talaði ekki fyrir afnámi verðtryggingar á neytendalánum. Málið var sett í nefnd. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að afnema ekki verðtrygginguna. Hver er hættan af þessari skuldaaðgerð? Hún er sú að hún auki á þenslu í samfélaginu, valdi verðbólgu og vegna þess að skuldsett heimili eru enn þá föst í viðjum verðtryggingarinnar muni fólk þurfa að greiða sjálft drjúgan hluta af 8 þús. kr. lækkun á afborgunum með hækkun á lánunum sínum.

Um forsendubrestinn er þetta að segja: Ég hygg að margir kannist við töluna 20%. Sú leiðrétting sem hér er á ferðinni er 80 eða 100 milljarðar, eftir því hvort menn vilja telja séreignarskattinn með. Það eru 4–5% af heildarskuldum heimilanna. Ef við tökum aðeins fasteignaskuldir heimilanna eru það 7% af fasteignaskuldum heimilanna. Er það óðaverðbólgan sem varð eftir hrun? Nei, sannarlega ekki. Ætli það muni það ekki flestir að hún var miklu nær því að vera tæp 20% en þessi 7%? Þess vegna er þessi millitala miklu lægri en sú sem lofað var. Við það bætist síðan að það er allt saman dregið af því fólki sem fór í gegnum þessar aðgerðir. Framsóknarflokkurinn talaði fjálglega fyrir kosningar um fólkið sem er í yfirskuldsettum eignum og hafði farið í gegnum 110%-leiðina. Framsóknarflokknum fannst ekki nóg að gert fyrir það fólk en í þessari aðgerð gerir hann ekkert fyrir það. Þetta er einmitt verst setta fólkið, fólkið sem skuldar allar eignir sínar. En á sama tíma er fjármunum ráðstafað til fólks sem borgar til að mynda auðlegðarskatt — eða borgaði auðlegðarskatt vegna þess að réttlæti þessarar ríkisstjórnar er þannig að hún léttir ekki bara auðlegðarskattinum af þeim sem greiddu hann í ríkissjóð heldur ætlar hún líka að greiða þeim fé í gegnum skuldaleiðréttingu.

Meðallækkunin á þær fjölskyldur sem þessa njóta er 1.300 þúsund. Kannski eigum við ekki að vera að karpa um það hvort þetta séu efndir á loforðunum. Samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs er meðalafborgun af 1.300 þúsund kr. í lánasafni Íbúðalánasjóðs 8 þúsund og eitthvað kr. á mánuði. Þeirrar lækkunar mun fólk njóta núna í rúmlega tvö ár af kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Það eru þá að meðaltali liðlega 200 þús. kr. sem hver fjölskylda sem þessa nýtur er með í lægri greiðslubyrði á þessu kjörtímabili, rúmlega 200 þús. kr. í lægri greiðslubyrði á þessu kjörtímabili í tíð þessarar ríkisstjórnar. Bara sérstöku vaxtabæturnar árið 2011 voru 300 þús. kr. á hjón og 200 þús. kr. á einstakling. Bara sú eina aðgerð hafði a.m.k. jafn mikil áhrif á greiðslubyrði skuldugra heimila og þessi aðgerð mun hafa á þessu kjörtímabili. Metið? Ja, sannarlega eru þetta svipaðar fjárhæðir og varið var í beinar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en við það bættust gengislánadómarnir og lögin sem stundum voru kölluð Árna Páls-lögin. Þá voru aðgerðirnar líklega komnar á þriðja hundrað milljarða fyrir utan allar frjálsar afskriftir sem urðu í bankakerfinu sjálfu.

Það sem er þó kannski mesta áhyggjuefnið núna er að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að láta heimilin í landinu sjálf borga þessa skuldaniðurfærslu með því að lækka lán heimilanna um 5% en hækka á sama tíma matarverð í landinu um 5% með hækkun á matarskatti og með því að minnka vaxtabætur um 14 milljarða kr. frá því sem var árið 2011, fyrir utan þann aukna kostnað sem verða mun af bankaskattinum í bankakerfinu, því að öll vitum við nú af reynslu að skattgreiðslur sínar reyna fjármagnseigendur að ná í með aukinni gjaldtöku í því ágæta kerfi.

En um leið og við förum í gegnum þessi atriði vil ég undirstrika mikilvægi þess að menn átti sig á þeirri erfiðu stöðu sem þau heimili eru í sem skilin eru eftir í þessum aðgerðum, þau 30 þús. heimili á leigumarkaði sem sannarlega urðu fyrir forsendubresti og líka þau heimili sem fóru í gegnum 110%-leiðina og fá hér ekki neitt. Þegar farið er yfir hversu skammt er farið inn í loforðin sem fólki voru gefin þá segir stjórnarmeirihlutinn iðulega: Hvað með séreignarsparnaðinn? Jú, fólki gefst kostur á því að spara í séreignarsparnaði og þannig getur það bætt sér upp áfallið sem það varð fyrir í hruninu.

Virðulegi forseti. Þessar yfirlýsingar lýsa miklu skilningsleysi á stöðu skuldugra heimila og þeim sem eru í erfiðleikum. Það er í raun og veru eins og að segja: Já, en af hverju borðar fólkið ekki kökur? Til þess að spara í séreignarsparnaði, virðulegir þingmenn stjórnarmeirihlutans, þarf maður að eiga peninga, maður þarf að eiga eitthvað afgangs. Maður þarf að hafa ráð á því að leggja inn á úrræðin og því miður eru það bara 30 þús. heimili eða innan við það, innan við fjórðungur heimila í landinu, sem sótt hafa um það úrræði, síðast þegar ég vissi. Og það er hætt við því að verulegur hluti af þeim sé einmitt þau heimili eða fjölskyldur sem ekki eru í greiðsluvanda, sem ekki eiga í verulegum erfiðleikum með að ná endum saman í hverjum mánuði, heldur hafa þvert á móti efni á því að nýta sér séreignarsparnaðarleiðina. Það er enn eitt sárgrætilega atriðið við óréttlætið í tillögunum að þar ræðst það líka af því hversu háar tekjur maður hefur, hvort maður getur nýtt sér skattaeftirgjöfina úr ríkissjóði. Þeir sem hafa mestar tekjur fá mestu eftirgjöfina úr ríkissjóði en þeir sem hafa litlar tekjur, hvað þá þeir sem hafa lífeyristekjur eða eru námsmenn eða aðrir slíkir, geta lítið eða ekkert nýtt sér þessi framlög úr ríkissjóði.

Virðulegur forseti. Það er réttlæti á hvolfi. Um leið og maður fagnar þeim fjölda heimila sem sannarlega fær framlög úr þessum aðgerðum sem þörf er á, þá er allt of ómarkvisst hér að verki staðið og allt of miklum fjármunum sóað til fólks sem ekki þarf á framlögum úr ríkissjóði að halda.