144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í bókum margra stjórnarliða og kannski einhverra fleiri heitir þetta að enn á ný hafi stjórnarandstaðan farið í umræður um fundarstjórn forseta og reynt að tefja og eitthvað svoleiðis. En þetta er ekki þannig. Stundum þarf bara að tala um fundarstjórn forseta og stundum þarf að láta í ljós óánægju sína. Ég ætla að gera það hér. Ég skil ekki að það sé ekki alveg augljóst að auðvitað er ekki hægt að ræða mál ef framsögumaður málsins, sá sem mælir fyrir skýrslunni, er bara farinn. Ég meina, það er bara heimskulegt að það sé ekki alveg augljóst.

Svo vil ég líka segja að það er nú bara tillitssemi við hæstv. forsætisráðherra að fresta umræðunni svo að hann geti verið viðstaddur hana. Fyrst hann hefur svona mikið að gera í dag þá ættum við bara að taka þessa umræðu seinna. Hann hóf ræðu sína á því að lýsa yfir mikilli tilhlökkun, að hann hlakkaði rosalega [Hlátur í þingsal.] mikið til að eiga orðastað við stjórnarandstöðuna á þessum mikla gleðidegi. Svo fer hann bara. [Hlátur í þingsal.]