144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

78. mál
[14:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að styðja 1. flutningsmann, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, í þessu máli. Ég er á þessu máli með henni og finnst þetta mjög gott mál sem. Eins og kemur fram í greinargerðinni er þetta fjórða þingið sem tillagan er flutt.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að það eigi að auka atvinnuþátttöku og uppbyggingu úti á landi, t.d. með því að flytja út á land opinber störf. Mér fannst það þegar þessi fína tillaga hv. þingmanns kom fram að þetta væri kannski fyrsti liðurinn í því, ekki síst vegna þess að samkvæmt mínum heimildum er mikil almenn ánægja með það innan Landhelgisgæslunnar og vilji fyrir því að færa þetta allt suður á Keflavíkurflugvöll. Það segir sig sjálft hversu gríðarlegt hagræði er af því, því að eins og kemur fram í greinargerðinni er starfsemi Landhelgisgæslunnar á víð og dreif. Það er svipað ástand með Landhelgisgæsluna og spítalann. Þetta er á ótal stöðum og gríðarlegt óhagræði af þessu. Svo að ég tali nú ekki um að þegar blessaður herinn fór fyrir nokkrum árum þá skildi hann eftir þessi mannvirki og þetta húsnæði sem er algjörlega sniðið fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Eins og ég sagði áðan var ríkisstjórnin á því að færa opinber störf út á land og mér fannst þetta einmitt vera fyrsti liðurinn í því. En svo allt í einu kemur í sumar tillaga um að færa Fiskistofu, eins og þruma úr heiðskíru lofti, og öll viðbrögðin við því og hvernig það var sett fram orsakaði mikinn óróa í samfélaginu, og ekki síst hjá þeim sem störfuðu þar. Það virtust allir vera á móti því en það er akkúrat öfugt með þetta. Það kom líka fram í flutningi hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur áðan í sambandi við norðurslóðir og um leit og björgun.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með að norðurslóðamálin eru gríðarlega mikið til umræðu í dag. Hér eru haldnar ráðstefnur á hverju ári um þetta og eins hef ég fundið það í starfi mínu í Vestnorræna ráðinu að þessar frændþjóðir okkar, Færeyjar og Grænland, treysta svolítið mikið á okkur hvað varðar öryggisþáttinn.

Nú þegar er farið að verða mikið um skemmtiferðaskipasiglingar norður með austurströnd Grænlands og víðar og hvað gerist ef það verður slys? Það var líka í umræðunni um daginn að við erum kannski engan veginn í stakk búin til að taka við slíkum stórslysum. Ég tel að það sé alveg lífsnauðsynlegt fyrir okkur að hefja þennan flutning strax og undirbúa okkur undir það að vera miðstöð leitar og björgunar og kannski heilbrigðiskerfisins á þessu svæði. Staðsetning okkar er þannig að þegar maður fer að velta þessum hlutum fyrir sér, sem ég fór að gera eftir að ég varð þingmaður, að þetta er gráupplagt. Það er okkar staða í þessum norðurslóðamálum, að við verðum miðstöð til dæmis eins og — það er nú líka eins og með sjúkrahúsið, kannski blanda ég því inn í, að við skulum ekki einhenda okkur í að byggja nýtt hátæknisjúkrahús, einmitt til þess að takast á við þessi verkefni framtíðarinnar og vera í stakk búin til að gera það.

Ég tel að við eigum að leggja enn þá meiri áherslu á að vinna í samstarfi við aðrar þjóðir hvað þetta varðar og fá þær í lið með okkur við að byggja upp þessa aðstöðu vegna þess að við erum þannig í sveit sett að við erum miðsvæðis. Eins og kom fram áðan hjá hv. þingmanni mundi þetta líka stytta tímann til að fara á þessi svæði þar sem meiri hætta er á slysum en annars staðar. Hún kom líka inn á mjög mikilsverðan punkt sem er sá að hafa á Norðurlandi eina þyrlu til að sinna þar gæslu og leit og björgun. Hún nefndi líka sjúkraflugið, ég er mjög hlynntur því að það verði skoðað alvarlega að Landhelgisgæslan taki yfir allt sjúkraflug í landinu. Manni finnst það einhvern veginn líka þannig að hjá svona lítilli þjóð ætti Landhelgisgæslan að sjá um þetta. Hún er þannig tækjum búin að hún er mjög fljót á staðinn og þyrlur geta lent í mun verra veðri en til dæmis flugvélar. Mér finnst þetta allt einhvern veginn haldast í hendur, vera svo frábær hugmynd.

Auðvitað er komið inn á fjármál, þetta kostar allt peninga. Við erum alltaf að velta okkur upp úr peningum. En þá er líka spurning um þessa forgangsröðun, þetta eykur öryggi og öryggistilfinningu fólks svo að ég tali ekki um líka, það hefur komið fram í umræðum á Alþingi, stöðu Suðurnesja. Það vita allir hvernig staða Reykjanesbæjar er núna. Nú er unnið að því hörðum höndum að laga það sem er frábært og er að myndast mikil samstaða um það. Ég held að þetta gæti orðið gríðarleg lyftistöng líka fyrir þetta svæði.

Eins og kom fram held ég að það yrði ásókn í vinnu hjá Landhelgisgæslunni, t.d. er nægt framboð á húsnæði á Suðurnesjum og það er rosalega gott að búa þar. Það er allt til staðar í Reykjanesbæ, góðir skólar, tómstundir, það er allt til staðar þarna. Þetta er bara eins og kjörið svæði fyrir þetta, ekki síst í ljósi þess hvað svæðið þarna upp frá er gríðarlega gott og hentar þessari starfsemi gjörsamlega. Í útópískum hugmyndum mínum yrði móttökusjúkrahús á Keflavíkurflugvelli, á svæði Landhelgisgæslunnar. Þetta eru bara svona hugmyndir sem maður sér fyrir sér í framtíðinni að gætu leikið lykilhlutverk okkar Íslendinga í þessum norðurslóðamálum og aukinni skipaumferð á því svæði. Það hefur í för með sér meiri hættu á slysum.

Ég held að ég sé búinn að fara yfir það helsta sem ég mundi fylgja eftir með þessu. Mér finnst þetta mjög góð hugmynd og ég vona svo sannarlega að þessi tillaga gangi alla leið í vetur og verði samþykkt. Ég get alveg tekið undir með 1. flutningsmanni að þetta gæti kannski gerst í einhverjum skrefum, en það er gríðarlega mikilvægt að fara af stað. Þetta er tillaga sem er til þess að auka heill og hamingju og öryggi íslensku þjóðarinnar, það er alveg á hreinu.