144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

[15:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með að stjórnarflokkarnir eru ekki alveg samstiga þegar kemur að útfærslu á sköttum eða breytingum á sköttum og þá sér í lagi þegar við fjöllum um meinta hækkun á matarskatti. Formaður fjárlaganefndar og ýmsir þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa lýst sig andsnúna hækkun matarskatts og hefur jafnframt komið fram að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur lýst sig andsnúinn þessum tillögum.

Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hann væri hugsanlega hlynntur því ef við mundum auka flækjustigið enn frekar með því að reyna að koma til móts við þá sem ekki fengu neinar leiðréttingar á sínum málum í aðgerð ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við sum heimili. En ég hef töluvert miklar áhyggjur af því hvað ríkisstjórnarflokkarnir eru með mismunandi áherslur í stórum málefnum. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji ekki heppilegt að hann gefi þinginu og landsmönnum mjög skýr svör um það hvort hann er fylgjandi hækkun matarskatts eða ekki.