144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á hrefnukjöti.

[15:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn.

Það er rétt að verr hefur gengið á þessu ári að veiða hrefnu en oft á liðnum árum. Þingmaðurinn spyr hvort við eigum að endurskoða hvalveiðikvótann í ljósi þess að við þurfum að flytja inn hvalkjöt. Ég held að staðan sé einfaldlega sú að hrefnukjöt er mjög eftirsótt á markaði og satt best að segja hefur innanlandsframleiðslan hvergi nærri annað eftirspurn. Þeir sem hafa stundað þessar veiðar hafa getað selt allt sitt kjöt á sumarmarkaði um leið og vinnslan á sér stað. Þegar sá brestur verður að ekki tekst að veiða tiltekinn fjölda dýra til þess að fullnægja eftirspurn á markaði grípa menn til þess að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi sem mér finnst þar af leiðandi ekkert athugavert við, ekki frekar en í öðrum tilvikum, satt best að segja.

Hv. þingmaður spyr: Eigum við að flytja inn hvalkjöt? Ég get spurt á móti: Af hverju ekki? Íslendingar eru vanir að neyta hrefnukjöts og Norðmenn og Íslendingar veiða hrefnu og reyndar fleiri, Grænlendingar. Þetta er mjög eðlilegt lífsmunstur og neyslumunstur á norðlægum slóðum. Ég tel ekkert athugavert við það, satt best að segja.