144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða þessar stóru spurningar. Þetta eru stóru álitamálin sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, hvernig við ætlum að ráðstafa því svigrúmi sem við höfum í ríkisfjármálum til að byggja upp landið okkar, byggja upp innviðina, mæta þörfum fólksins í landinu, bæta lífskjörin.

Eitt af þeim málum sem við teljum mikilvægt í þessari ríkisstjórn að setja í forgang er að fara í aðgerðir vegna gríðarlega hárrar skuldastöðu heimilanna. Nú liggur það fyrir með hvaða hætti það verður gert og það skilar þeim árangri að skuldirnar fara, eins og hv. þingmaður rakti, niður fyrir 100%, niður í um 94–95%, í lok þess árs. Það er stórt skref. Við skulum ekki gleyma því að þetta eru ekki fjármunir sem hverfa úr ríkissjóði og fara til einskis. Þeir fara vissulega úr ríkissjóði eða um ríkissjóð og þeir ganga beint til að lækka skuldastöðu heimilanna.

Tökum það með í umræðunni. Það eru skuldir heimilanna sem lækka. Það er sérstakt fagnaðarefni vegna þess að lítil einkaneysla í landinu — einkaneyslan hefur verið í sögulegum lægðum — er meðal annars til komin vegna þess að heimilin eiga erfitt með að ná endum saman vegna þessarar skuldastöðu.

Spurningin er þessi: Er það svo að allt svigrúm sem verður í fjármálum hins opinbera eða ríkisins verði nýtt í þessa aðgerð? Það er ekki svo. Nú erum við með til umræðu hér í þinginu fjáraukalagafrumvarp. Við höfum flýtt aðgerðunum. Við höfum sett til viðbótar við þá 20 milljarða 16 milljarða inn til 2. umr. í fjáraukalagafrumvarpinu til að fara í skuldaaðgerðirnar. Þar erum við strax komin með um það bil helminginn af aðgerðinni. Engu að síður er rúmlega 40 milljarða afgangur á ríkissjóði á þessu ári, heildarafgangur. Þegar við höfum tekið með í reikninginn að afgangur er á ríkissjóði á næsta ári þrátt fyrir aðgerðina á því ári blasir það við hverjum sem vill sjá að við höfum svigrúm til að gera meira en þetta.

Góðu fréttirnar eru þær að tekjustofnar ríkisins eru að taka við sér. Álagning á lögaðila er að skila hærri tekjum. Sömuleiðis tekjuskattur einstaklinga. Aðrir tekjustofnar eins og fjármagnstekjuskattur, tryggingagjald á fyrirtæki; allir þessir skattstofnar eru að taka við sér að nýju. En það er alveg rétt að við munum ekki geta byggt útgjöld ríkissjóðs á einskiptistekjum eða tímabundnum skattstofnum, eins og hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni. Það er einmitt þess vegna sem það er ágætt að á meðan við njótum þeirra tekna — ríkisstjórnin tók sérstaka ákvörðun um að stórhækka bankaskattinn og breikka skattstofninn — að slíkir fjármunir séu þá notaðir í einskiptisútgjöld eins og þau sem við ræðum hér í dag, sem er aðgerðin til lækkunar á skuldum heimilanna.

Ef við færum út í annars konar útgjaldaauka sem væri viðvarandi værum við í meiri vanda stödd. Reyndar held ég að það væri ágætt að láta reikna það út fyrir okkur hvað jafngildir einskiptisaðgerð á borð við þá sem við ræðum hér, um það bil 80 milljarðar úr ríkissjóði — hvað jafngildir sú fjárhæð hárri varanlegri aukningu í rekstur hjá ríkinu? Ætli það sé ekki einhvers staðar á bilinu 7–10 milljarðar sem mundi vera jafngildi þessarar einskiptisfjárhæðar. Höfum það með í umræðunni.

Það sem er ánægjulegt varðandi þær efnahagsspár sem við erum núna að fá, bæði frá Hagstofunni og Seðlabankanum, er að fjárfesting er að taka við sér. Við höfum áhuga á því, ég og frummælandi hér, að fjárfesting taki við sér. Það sem er sömuleiðis ánægjulegt er að með aukinni landsframleiðslu mun hagur ríkissjóðs vænkast og við fáum með því svigrúm til að fara í þessi brýnu mál sem við erum líka sammála um, ég og frummælandi, að þurfi að ráðast í, í innviðauppbyggingu og uppbyggingu þessara grunnstoða, spítalann okkar. Tökum þá með í reikninginn að við höfum aldrei haft hærri framlög til spítalans okkar, Landspítalans, en á þessu ári eftir að við bættum rúmlega 4 milljörðum við fjárlagagerð yfirstandandi árs hér í þinginu á síðasta ári. Við settum um 4 milljarða til viðbótar við það sem upphaflega var gert ráð fyrir inn á árið 2014, erum þess vegna á þessu ári með hæstu framlög til Landspítalans í sögunni.

En spítalinn finnur enn fyrir þeim gríðarlega samdrætti sem varð hér á hrunárunum. Það var skorið niður þar á hverju einasta ári um marga milljarða. Það er ekki nema von að menn finni fyrir því í einhvern tíma. En smám saman erum við að auka þessi framlög (Forseti hringir.) og okkur eru að færast í hendur tækifæri til að gera enn betur á því sviðinu eins og í skólamálum og skuldahlutföll ríkisins eru á sama tíma að lækka vegna kraftmikils vaxtar í landsframleiðslu.