144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[15:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það kveður nokkuð við þann tón hjá hæstv. fjármálaráðherra að þessi skuldaleiðréttingaraðgerð sé í raun og veru efnahagsaðgerð og til þess að örva einkaneyslu. Nú má til sanns vegar færa að gagnvart tekjulágu fólki og fólki sem á litla sem enga eign hefur það vissulega margvísleg jákvæð áhrif í efnahagslegu samhengi að bæta stöðu þess, en það gildir öðru máli um þegar komið er upp í mjög háar tekjur eða fólk sem fyrir á miklar eignir. Þá eru þjóðhagsleg áhrif og hagræn áhrif af slíkum örlætisgerningi frá ríkinu allt önnur og miklu umdeilanlegri. Kostnaður ríkisins upp á annað hundrað milljarða kr. af þessari aðgerð og kostnaður ríkis og sveitarfélaga til samans hátt á annað hundrað milljarða kr. er augljóslega opinberir fjármunir sem ekki verða notaðir í annað, þar á meðal og kannski ekki síst til fjárfestinga í innviðum samfélagsins.

Ég verð að segja eins og er að eftir að hafa lesið þjóðhagsspána núna og hagspána bregður manni enn meira í brún. Ég tek undir með málshefjanda hvað það varðar. Hversu lengi getum við svelt algerlega viðhald og uppbyggingu í innviðum samfélagsins og hent þeim reikningi inn í framtíðina?

Hagstofan spáir nú óbreyttu fjárfestingarstigi og heldur lækkandi út spátímann, til 2018, að hlutfall opinberrar fjárfestingar landsframleiðslu haldi áfram að lækka úr undir 3% — sem það reis þó upp í 2013, hefur hækkað í fyrsta sinn síðan 2007 — niður í um 2,5% árið 2018. Það verður ekki gefið í í sambandi við heilbrigðiskerfið, nýjan Landspítala, skóla, vegi, fjarskipti, annað því um líkt. Skuldir ríkisins ekki borgaðar niður. Ekki settir meiri fjármunir í nauðsynlegan rekstur og þjónustu. Og svigrúm ríkisins til launagreiðslna takmarkast sem þessu nemur.

Alvarlegast er þó auðvitað, herra forseti, að reikningnum, (Forseti hringir.) þessum stóra reikningi, er hent inn í framtíðina ásamt með því sem bíður komandi kynslóða að takast á við í sveltum innviðafjárfestingum og minnkandi opinberri fjárfestingu samfellt á fimm ára tímabili (Forseti hringir.) ef ríkisstjórnin fær að ráða.